SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 6. apríl 2024

APRÍLPERLA VORSINS VARSTU

Árið 2011 kom út ljóðabók Guðrúnar Valdimarsdóttur Bláklukkur. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi sá um útgáfu. Austfirðingar sjá um sitt fólk. Guðrún var þá komin á efri ár, hún var fædd árið 1920 og því orðin 91 árs. Guðrún er dóttir okkar ástsælu skáldkonu Erlu. 

Ljóðin í bókinni eru nett og falleg og þar má glöggt sjá hæfileikana hennar Guðrúnar við að setja niður vísur. Bókin er alls 87 blaðsíður og hafa að geyma um það bil 60 ljóð. Þau er flokkuð í flokka sem samanstanda af ,,Ljóð - Árnað heilla, Börn og Lausavísur.

Í ljóðunum yrkir hún falleg náttúruljóð af mikilli bragarsnilld. ,,Vorsól skín og vermir landið,/vetur genginn er á braut./Lifnar allt sem lá í dvala,/laufgast tekur foldarskaut." Einmitt það sem við erum að upplifa nú um stundir, sólin hækkar á lofti og ljóstillífunin á sér stað. Mennirnir rétta úr sér um leið og stráin, horfa upp til himins og dásama lífið. ,,Sæt er angan ótal jurta,/ilmur blandast hlýjum þey./Vaxa blóm á berjalyngi,/brosir lítið gleym mér ei./Fagurt syngur fulg á kvisti,/fagnar komu vorsins dátt./Það er yndi alls er lifir,/öllu veitir töframátt" og við bíðum þess að hitinn hækki hér á norðurhveli jarðar, bíðum eftir því að sólin græði líf í jörð en heyrum þó í smáfuglunum, fréttum af lóunni sem komin er heim til þess að fjölga sér.

Í flokknum Árnað heilla er hún á öðrum nótum. Hún yrkir til samferðamanna sinna, allskonar kveðjur til handa þeim sem standa á tímamótum. Mikið væri það fallegt, ef þessi siður okkar formæðra og feðra sem settust niður og ortu fallega drápu til sinna væri enn við líði. ,,Þá litið er til baka á löngum ævivegi/er ljúft að minnast stunda er hátt á lofti ber."  er falleg hending og gott að lesa. ,,Aprílperla vorsins varstu/valin af þeim best er kunni,/að vera söngur, ljóð og leikur,/lífsins krydd í tilverunni."

Undir flokknum börn yrkir hún til barna sinna ,,Hallar höfði þreyttu/hægt að mjúkum dúni,/bíður svefnsins sæta/syfjuð, lítil dóttir. Bið ég blíðir englar/ birtist þér í draumi/og þér alla tíma/ yfir jafna vaki." 

Í lausavísum gætir kímni hjá Guðrúnu. ,,Þótt skarað sé að gömlum glæðum/gildir mig það öngu/Ég er dauð úr öllum æðum/orðin fyrir löngu."

Ljóðabókin hennar Guðrúnar er dásamleg og falleg og það er líka dásamlegt að geta teygt sig upp í hillu og gluggað í hana. Takk fyrir það.

Guðrún Valdimarsdóttir. - valdimarg.blog.is

Tengt efni