SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 1. apríl 2024

MARÍA MAGDALENA

Valgerður H. Bjarnadóttir skrifaði stuttan pistil um Maríu Magdalenu í gær, páskadag. Pistillinn vakti áhuga minn enda fróðlegt efni á ferð. Daginn sem fjallar um upprisu Jesús Krists. Við sem lærðum um sögu Jesús í barnaskóla munum vel eftir því að Jesús var krossfestur, dáinn og grafinn og við minnumst þess að María hafi grátið við fætur meistarans buguð af sorg. En Valgerður þekkir sögu Maríu betur og gaman er að lesa hana.

Valgerður er áhugamanneskja um sögu og merkingu Maríu Magdalenu í menningu okkar og auk þess að skrifa um þá er hún að kenna hana líka. Valgerður er menntuð í þessum fræðum en auk þess að vera félagsráðgjafi þá lauk hún BA gráðu í heildrænum fræðum (Integral Studies) frá California Institute of Integral Studies í San Francisco, með áherslu á draumafræði og síðar stundaði hún MA-nám í femínískri trúarheimspeki og menningarsögu (Women’s Spirituality) við sama skóla. Hún hefur lagt áherslu á að finna tengsl úr íslenska sagnaarfinum við kvenímyndir og trúarminni frá öðrum menningarheimum. Meistararitgerð hennar kom út árið 2001 ,,Vanadís, Völva, Valkyrja – Images of the Divine from the Memory of an Islandic Woman" fjallar um leitina að þráðum fornevrópskrar gyðjumenningar, sem hafa lifað og lifa enn í íslenskri menningu. Hún kom út á bók í Þýskalandi 2009 og er fáanleg m.a. á Amazon. 

María Magdalena er merkilegt fyrirbæri í kristnisögunni segir Valgerður, því hún er bæði upphafin og niðurlægð, dýrkuð og fordæmd. Við sjáum strax í guðspjöllum Nýja testamentisins ólík viðhorf guspjallamannanna til hennar, þar sem Jóhannes virðist meta hana mest, Mattheus og Markús eru líka heiðarlegir í að segja frá henni sem mikilvægri í sögu Jesú, en Lúkas  reynir að draga upp af henni tvíræða mynd. Hann kemst ekki hjá því að nefna hana og segja frá mikilvægi hennar, en reynir á móti að gera hana tortryggilega. Nokkuð sem kirkjan síðar tók fagnandi og stimplaði þessa konu sem iðrandi hóru, haldna  illum öndum .. hún varð að fyrirmynd syndara sem skyldu fara að hennar fordæmi og iðrast. Það átti ekki síst við um konur, Evudætur.
 
Öllum þessum árum síðar er saga Maríu saga enn í huga okkar en einhvern veginn aldrei að fullu sögð en eins og Valgerður segir þá fær engin kona eins mikið pláss á Nýja testamentinu eins og María, enda stóð hún við hlið Jesú allt til æviloka.
 
Íslenskar konur hafa í gegnum tíðina ort sálma um upprisuna. Ein af þessum konum er Guðrún Guðmundsdóttir frá Melgerði. Hún orti ljóðið Páskar sem finna má í ljóðabókinni hennar ,,Ljóðmæli" sem gefin var út af Bókaútgáfunni Grund. Þar fjallar Guðrún um Maríu sem situr við gröfina grátandi og söknuðurinn er allsráðandi.
 
Páskar
 
Nú krýp ég í auðmýkt við Guðs sonur gröf
og ég græt, því hann dó fyrir mig.
Hver þekkir þá ómælis elskunnar gjöf,
sem upplýsir syndarans stig.
 
Ég lít inn í gröfina, grátandi þó,
en geisladýrð fögur þar skín,
því Frelsarinn lifir, - það flytur mér ró -
þar fullkomnast lífsvonin mín.
 
Hjá gröf minna vina - er sorgin var sár
og sýndist mér ég hafa misst,
þá þerraði vonin mín viðkvæmnistár,
sú von, er ég á fyrir Krist.
 
Mér Jesús er lífið, hann leiði fyrir mig,
mitt líf honum aftur ég gef.
Þér Jesús sé lífið, hann leið fyrir þig,
er lest þessi vanþroska stef. 
 
Valgerður segir frá því að árið 2010 kom svo út bók, sem byggir á Maríuguðspjallinu eins og það hafði varðveist í felum í aldaraðir, á próvensölsku, meðal launsafnaðar í Frakklandi. Bókin er kennd við heiti guðspjallsins sem var kallað (á ensku) The Gospel of the Beloved Companion, og það fjallar um líf Jesú og Magdalenu, sem skv. því voru ástvinir eða jafnvel hjón. Sagt er að það sé hið upprunalega og heila Maríuguðspjall og það er að miklu leyti samhljóða sumum guðspjöllum NT, en að öðru leyti segir það okkur týnda sögu og spyr hvort þau eigi ekki erindi við nútímann.
 
Það er mjög fróðlegt fyrir áhugasama að lesa sér til um tilvist og sögu Maríu Magdalenu. Valgerður er fjölfróð um kvennasöguna og býður hún upp á námskeið sem fengið hafa góða dóma. 
 
Hér er hægt að lesa þennan fallega pistil Valgerðar og hér er slóð á heimasíðu hennar, Vanadís.is
 

Tengt efni