SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Þóra Marta Stefánsdóttir

Þóra Marta Stefánsdóttir fæddist í Lundi, Reykjavík, 1. nóvember 1905, einkabarn foreldra sinna. Faðir hennar, Stefán B. Jónsson, hafði farið til Vesturheims og kynnst mörgum nýjungum og tækni. „Og þar hafði hann hlotið viðurkenningu og verðlaun fyrir uppfundningar. Stefán B. Jónsson auglýsti vinnutæki og verkfæri, sem ekki höfðu áður tíðkast hér og birti jafnframt myndir af tækjunum. Þetta var allt nýstárlegt“ segir í minningargrein í Mbl.

Þóra Marta var bráðgáfuð og fjölhæf, talaði fimm tungumál  og varð meðal annars dúx úr Verslunarskóla Íslands 1923. Kennarapróf tók hún árið 1933. Hún hafði unun af að læra, var listhneigð og söngvin, mjög vel ritfær og ættfróð. „Þóra Marta var víðlesin, bæði í sögu og trúarbrögðum. Hún var einnig listræn og víða á heimilum eru málverk eftir hana. Hún lék á hljóðfæri og skrifaði bækur, meðal annars rit, sem hún skrifaði um ætt sína. Hún var metnaðargjörn fyrir sig og sína. Það var háleitt metnaðarmál hennar að halda uppi minningu foreldra sinna. Faðir hennar var líka forystumaður á mörgum merkilegum sviðum. Hann stofnaði bú á Reykjum í Mosfellssveit og lagði heitt vatn í bæ sinn, fyrstur manna á íslandi. Hann stofnaði mjólkursölu í hinum vaxandi bæ og hann fékk fyrstur manna hér á landi tæki til þess að gerilsneyða mjólk til sölu. Og tugi annarra verka af framkvæmdum þessa manns mætti nefna“ (minningargrein í Mbl.). Um föður sinn og afrek hans skrifaði Þóra Marta minningarorð í Breiðfirðing 1951. Á facebook er að finna hóp afkomenda Þóru Mörtu og Karls, Undraland, þar sem finna má ýmsan fróðleik um fjölskylduna.

Þóra Marta skrifaði eina bók árið 1949 sem hét Lóa litla landnemi  og myndskreytti sjálf. Hún og maður hennar, Þjóðverjinn Karl Hirst, áttu tvær dætur og bjuggu á jörð sem var kölluð Undraland (Þóra Marta er amma Elínar Hirst fjölmiðlakonu). Við hermám Breta 1940 var Karl handtekinn og sendur í fangabúðir í Bretlandi og ekki sleppt fyrr en að sjö árum liðnum. 

Nokkur ljóð eftir Þóru Mörtu birtust í tímaritinu Breiðfirðingi. Hún skráði einnig niðjatal séra Jóns Benediktssonar, árið 1971.

Þóra Marta lést 27. september 1981. 

 

Heimildir og myndir: Mbl og ísmús


Ritaskrá

  • 1971 Niðjatals séra Jóns Benediktssonar og Guðrúnar Kortsdóttur konu hans: ættartölur og niðjatal ásamt ævisögubrotum
  • 1949 Lóa litla landnemi. Barnasaga frá Nýja Íslandi