SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Þórdís Richardsdóttir

Þórdís er fædd í Reykjavík 1951. Hún er skáld og kennari og hefur verið búsett í Uppsölum í Svíþjóð síðan 1976. Þar vann hún við ýmis störf, svo sem ræstingar, sem sjúkraliði, fóstra og móðurmálskennari en frá 1994 sem kennari í Sænsku fyrir innflytjendur (SFI). Þórdís lauk kennaraprófi frá KÍ vorið 1972, var kennari við Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi 1975-1976. Hún lærði leikhúsfræði og skapandi dramatík við Stokkhólms- og Uppsalaháskóla og síðar Svenska som andraspråk. Hún hefur sótt ýmis námskeið bæði í kennslufræði og ritlist í Svíþjóð og starfaði með áhugaleikhópnum Bikupan í Uppsölum frá 1982-1993 þar sem hún lék, leikstýrði og skrifaði leikþætti.

Ljóðabækur hennar eru tvær, Ljóð í lausaleik (1976) sem inniheldur femínísk og nýraunsæ baráttuljóð og Úr bláu tjaldi (2001). Um seinni ljóðabókina, sem var langþráð, segir Þórdís:  „Þær aðstæður og sú spenna sem skapast við að að lifa og starfa í einu landi en eiga rætur sínar, æskuminningar, ýmsa drauma og lífseiga þrá í öðru, er kveikjan að ljóðunum í bókinni Úr bláu tjaldi. Ljóðin tengja í huga mínum saman löndin tvö og mörg þeirra hafa fylgt mér lengi, verið hluti af farangrinum í ferðum milli Svíþjóðar og Íslands.“  Í umsögn um ljóðabókina skrifaði Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir í DV 21/12 2001: Í ljóðinu „Heimar“ bregður Þórdís upp mynd af tveimur heimum, og undirstrikar að menn þurfa ekki að fara á milli landa til þess að upplifa þá:

Í eldhúsinu

skrjáfar í kjólum

Mamma bætir á sig varalit

amma hnýtir sparisvuntuna

Svo opnast stofan

full af karlahlátri

Ljóð eftir Þórdísi hafa birst í tímaritum, s.s. TMM og Ljóðormi, safnritum og kennslubókum fyrir grunnskóla. Smásagan „Sá eini rétti“ birtist í Veru 1983 og „Heimsókn“ í Íslandspósti 1993. Þá var Þórdís ötul baráttukona varðandi kvenréttindi á áttunda áratugnum og skrifaði m.a. í Þjóðviljann.

Þórdís hefur þýtt þrjár barnabækur, Iggi og síðasti ísjakinn, eftir Dûrr, Nordlund, Silis og Werner (Fimafeng 2009). Öðruvísi dagur, eftir Ahlén, Gleisner, Marainen og Newth (Fimafeng 2009) og Elvar og Elva, eitt ár – tvö líf eftir Björnulfson (Fimafeng 2010).

Í Svíþjóð hafa ljóð og ein smásaga eftir Þórdísi komið út í safnritunum Att skriva en stad (Að skrifa borg, Litteraturcentrum 2012), I litteraturens land (Í bókmenntalandinu, Litteraturcentrum 2013) og Lyfta locket av Uppsala (Lyfta lokinu af Uppsölum, Litteraturcentrum 2015). Í mars 2019 gaf hún ásamt fimm öðrum konur út bókina Vi ses på onsdag, dikter och prosa (Sjáumst á miðvikudaginn, ljóð og prósatextar, Vulkan förlag), með ljóðum og prósatextum sem þær hafa skrifað í ritlistarhópi sínum. Flest af ljóðum Þórdísar í bókinni eru tvímála, þ.e bæði á sænsku og íslensku.

Þórdís er í sambúð með Per Otto Sylwan. Hún á tvö börn, Snædísi Erlu Másdóttur, fædd í Reykjavík 1970 og Jón Anders Strandberg, fæddur í Uppsölum 1981.


Ritaskrá

2001   Úr bláu tjaldi

1976   Ljóð í lausaleik

Þýðingar

2010 Elvar og Elva: eitt ár - tvö líf eftir Charlotte Björnulfsson

2009 Iggi og síðasti ísjakinn eftir Morten Dürr o.fl. 

2009 Öðruvísi dagur, eftir Ahlén, Gleisner, Marainen og Newth

Þá hafa ljóð og ein smásaga eftir Þórdísi komið út í safnritunum Att skriva en stad (Að skrifa borg, Litteraturcentrum 2012), I litteraturens land (Í bókmenntalandinu, Litteraturcentrum 2013) og Lyfta locket av Uppsala (Lyfta lokinu af Uppsölum, Litteraturcentrum 2015). Í mars 2019 gaf hún ásamt fimm öðrum konur út bókina Vi ses på onsdag, dikter och prosa (Sjáumst á miðvikudaginn, ljóð og prósatextar, Vulkan förlag).

Tengt efni