SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Þórdís Richardsdóttir

Þórdís Richardsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1951.

Þórdís er skáld og kennari og hefur verið búsett í Uppsölum í Svíþjóð síðan 1976. Þar vann hún við ýmis störf, svo sem ræstingar, sem sjúkraliði, fóstra og móðurmálskennari en frá 1994 sem kennari í Sænsku fyrir innflytjendur (SFI).

Þórdís lauk kennaraprófi frá KÍ vorið 1972, var kennari við Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi 1975-1976. Hún lærði leikhúsfræði og skapandi dramatík við Stokkhólms- og Uppsalaháskóla og síðar Svenska som andraspråk. Hún hefur sótt ýmis námskeið bæði í kennslufræði og ritlist í Svíþjóð og starfaði með áhugaleikhópnum Bikupan í Uppsölum frá 1982-1993 þar sem hún lék, leikstýrði og skrifaði leikþætti.

Fyrsta ljóðabók Þórdísar, Ljóð í lausaleik kom út 1976 og inniheldur femínísk og nýraunsæ baráttuljóð. Úr bláu tjaldi kom út 2001. Um hana sagði Þórdís:  „Þær aðstæður og sú spenna sem skapast við að að lifa og starfa í einu landi en eiga rætur sínar, æskuminningar, ýmsa drauma og lífseiga þrá í öðru, er kveikjan að ljóðunum í bókinni Úr bláu tjaldi. Ljóðin tengja í huga mínum saman löndin tvö og mörg þeirra hafa fylgt mér lengi, verið hluti af farangrinum í ferðum milli Svíþjóðar og Íslands.“  Í umsögn um ljóðabókina skrifaði Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir í DV 21/12 2001: Í ljóðinu „Heimar“ bregður Þórdís upp mynd af tveimur heimum, og undirstrikar að menn þurfa ekki að fara á milli landa til þess að upplifa þá:

 

Í eldhúsinu
skrjáfar í kjólum
Mamma bætir á sig varalit
amma hnýtir sparisvuntuna
Svo opnast stofan
full af karlahlátri

 

Þriðja ljóðabók Þórdísar, Eins og í kviksjá, kom út 2021, svo óhætt er að segja að langt sé á milli bóka Þórdísar.

Ljóð eftir Þórdísi hafa hins vegar einnig birst í tímaritum á borð við Tímarit Máls og menningar og Ljóðorm, og einnig í safnritum og kennslubókum fyrir grunnskóla. Smásagan „Sá eini rétti“ birtist í Veru 1983 og „Heimsókn“ í Íslandspósti 1993. Þá var Þórdís ötul baráttukona varðandi kvenréttindi á áttunda áratugnum og skrifaði m.a. í Þjóðviljann.

Í Svíþjóð hafa ljóð og ein smásaga eftir Þórdísi komið út í safnritunum Att skriva en stad (Að skrifa borg, Litteraturcentrum 2012), I litteraturens land (Í bókmenntalandinu, Litteraturcentrum 2013) og Lyfta locket av Uppsala (Lyfta lokinu af Uppsölum, Litteraturcentrum 2015). Í mars 2019 gaf hún ásamt fimm öðrum konur út bókina Vi ses på onsdag, dikter och prosa (Sjáumst á miðvikudaginn, ljóð og prósatextar, Vulkan förlag), með ljóðum og prósatextum sem þær hafa skrifað í ritlistarhópi sínum. Flest af ljóðum Þórdísar í bókinni eru tvímála, þ.e bæði á sænsku og íslensku.

Ljóð og ein smásaga eftir Þórdísi hafa verið þýdd á sænsku og komið út í safnritunum Att skriva en stad (Að skrifa borg, Litteraturcentrum 2012), I litteraturens land (Í bókmenntalandinu, Litteraturcentrum 2013) og Lyfta locket av Uppsala (Lyfta lokinu af Uppsölum, Litteraturcentrum 2015). Í mars 2019 gaf hún ásamt fimm öðrum konur út bókina Vi ses på onsdag, dikter och prosa (Sjáumst á miðvikudaginn, ljóð og prósatextar, Vulkan förlag).

Þórdís er í sambúð með Per Otto Sylwan. Hún á tvö börn, Snædísi Erlu Másdóttur, fædd í Reykjavík 1970 og Jón Anders Strandberg, fæddur í Uppsölum 1981.


Ritaskrá

  • 2021  Eins og í kviksjá
  • 2019  Vi ses på onsdag, dikter och prosa (ásamt fleiri höfundum)
  • 2001  Úr bláu tjaldi
  • 1976  Ljóð í lausaleik

 

Þýðingar

  • 2010  Elvar og Elva: eitt ár - tvö líf eftir Charlotte Björnulfsson
  • 2009  Iggi og síðasti ísjakinn eftir Morten Dürr o.fl. 
  • 2009  Öðruvísi dagur eftir Ahlén, Gleisner, Marainen og Newth

 

Tengt efni