Þura í Garði
Þura var ein af átta börnum Árna Jónssonar bónda í Garði og Guðbjargar Stefánsdóttur, konu hans. Hún fæddist 21. janúar 1891.
Þura var ógift og barnlaus og átti alla tíð heimili í Garði í Mývatnssveit. Hún orti svo um hagi sína:
Formleg skólaganga Þuru var ekki löng. Hún naut uppfræðslu á heimili sínu og var fimm vikur í skóla fermingarárið. Hún var einn vetur í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og fór á garðyrkjunámskeið bæði í Reykjavík og Akureyri. Tvo vetur starfaði hún á Hvanneyri, árin 1911-12. Þar var hún samtíða ýmsum sem síðar urðu þjóðkunnir menn. Unga fólkið skiptist á vísum og barst snjall kveðskapur Þuru víða um land.
Þura var lengi í Ungmennafélaginu Mývetningi og formaður í tvö ár, fyrst kvenna, sem hún lýsti svo: „Nú vildi svo til að haustið 1924 var stjórnarbylting í Ungmennafélaginu, höfðu áður stjórnað því karlmenn, skólagengnir, og ekki af lakari endanum, en nú kom kvenstjórn og hlaut ég formannssess.“ Í stjórnartíð hennar var unnið að gróðursetningu í kirkjugarðinum á Skútustöðum, ýmsum til lítillar hrifningar, er haft eftir Þuru. Lagði hún hart að sér að safna plöntum til gróðursetningar. Seinna vann hún við garðyrkju í Lystigarðinum á Akureyri.
Margir sendu Þuru skeyti í bundnu máli sem hún svaraði jafnan að bragði. Hún var gamansöm og kunni að gera grín að sjálfri sér. Á fjórða áratug síðustu aldar voru vísur Þuru orðnar alkunnar en þá stundum orðnar svo breyttar að kunnugir þekktu þær varla. Eins voru settar á flot vísur sem sagðar voru eftir hana og vörpuðu á hana frægð með öðru sniði en hún óskaði eftir sjálf. Því var ráðist í að valdar voru nokkrar af vísum Þuru og gefnar út undir titlinum Vísur Þuru í Garði, 1939. Útgefandinn var frændi hennar Helgi Tryggvason, bókbindari. Kverið seldist prýðilega og fékk allgóða dóma og var endurútgefið 1956.
Árið 1951 kom út eftir Þuru bókin Skútustaðaætt – Niðjatal Helga Ásmundssonar á Skútustöðum. Aðra bók hafði hún smíðum um föðurætt sína og átti hún að heita Marteinsflæða en henni lauk Þura aldrei. Jafnhliða þessu skrifaði hún nokkra þætti byggða á þessum athugunum sínum og sögusögnum gamals fólks sem hún kynntist í æsku. Voru sumir þeirra prentaðit í tímaritum og jólablöðum en aðrir eru enn óprentaðir.
Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, frænka Þuru, dóttir Jakobínu Sigurðardóttur, skrifar um hana:
„Nú er leiði hennar gleymt og gróið og spor hennar og verk hvergi sýnileg, þrátt fyrir látlaust strit og baráttu um marga áratugi. Saga hennar er ef til vill ekki merkileg, og sumir munu ekki telja ómaksvert að skrá hana. En þó er hún saga heillar kynslóðar, ótal kvenna um land allt og lönd öll, sem hafa lifað við sömu kjör: Mikla vinnu, lítil laun og enga hvíld, fyrr en í sinni dimmu gröf. Uppskeran? Hinum megin? spyr Þura í grein um kjör fátækrar alþýðukonu, en hún hafði ríka samúð með smælingjum og fátæklingum landsins. Það er allt að því að votti fyrir beiskju í orðum hennar, sem virðist í fljótu bragði ólíkt flestu sem hún skrifaði. En það var af hluttekningu með öðrum, ekki af sjálfsvorkunn. Samhygð með örlögum annarra sést víðar í verkum hennar, til dæmis í ljóðinu „Í Skálholtskirkjugarði“:
Þura var sjúklingur síðustu árin, dvaldi á sjúkrahúsi á Akureyri en kom um tíma heim í Mývatssveit á sumrin. Þura lést þann 14. júní, 1963.
Ritaskrá
- 1951 Skútustaðaætt, niðjatal Helga Ásmundssonar á Skútustöðum
- 1939 Vísur Þuru í Garði (endurútg. 1956)