Þuríður Briem
Þuríður Ólafsdóttir Briem fæddist í Eyjum í Breiðdal 28. september 1919.
Þuríður var yngst af fjórum systkinum og var á unglingsaldri þegar faðir hennar missti sjónina og varð skömmu síðar að bregða búi. Foreldrar Þuríðar fluttu til Reykjavíkur en sjálf fór hún norður í Eyjafjörð, í Fagraskóg þar sem hún átti frændfólk, og var þar um tíma. Hún vann við ýmis störf þangað til hún giftist Gísla Þórólfssyni frá Sjólyst og settist að á Reyðarfirði. Þau hjón áttu fjögur börn.
Um Þuríði segir í minningargrein í Morgunblaðinu:
„Þuríður var í ýmsu á undan sinni samtíð. Hún fór daglega í heilsubótargöngur mörgum árum áður en nokkur lét sér detta í hug að hreyfing væri holl. Hún var einnig mjög bókhneigð og las mikið en gleymdi þá stundum uppvaskinu - enda hljóp það ekkert frá henni!“
Þuríður var ljóðelsk og orti talsvert, skrifaði skáldsögu og sendi frá sér ljóðabókina Hagalagða, auk þess birtist eftir hana kveðskapur opinberlega, m.a. í bókunum Aldrei gleymist Austurland og Breiðdælu (safnriti) og víðar.
Í bókinni Huldumál: hugverk austfirskra kvenna (2003) er að finna bókarkafla og ljóð eftir Þuríði.
Þuríður lést á Seyðisfirði 7. júní 2002.
Ritaskrá
- 2003 Huldumál (bókarkafli og ljóð)
- 1983 Hagalagðar (ljóðabók)
- 1971 Gleymmérei (skáldsaga)