SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Auður Ingvars

Auður H. Ingvars (1935-2012) skrifaði líka undir nafninu Auður Ingvars. Hún skrifaði tvær skáldsögur og sendi frá sér eina ljóðabók á fimm árum.

Fyrsta skáldsaga hennar er einskonar furðusaga um spillt nútímasamfélag. „Mefistó eða sjálfur Satan er að verki og gerir atlögu að landinu með beinan atbeina íslenskra handbenda. Ástandið verður ömurlegt, eiturlyf flæða yfír landið, drykkjuskapur, hnífsstungur, ofbeldi, einelti, hræðileg sifjaspell, jafnvel morð, verða daglegt brauð. En óljóst er hvort sú lýsing er ímyndun eða raunvera“ segir í umfjöllun í Morgunblaðinu. Seinni skáldsaga Auðar, Hvenær kemur nýr dagur, „fjallar á miskunnarlausan hátt um svik og svívirðu í ástum. Hún lýsir tveimur kvengerðum, Klöru, hinni blíðu og góðu sem alltaf lætur traðka á sér og ber í bætifláka fyrir eiginmann sinn, þó hann misþyrmi henni og svíki með framhjáhaldi og hinsvegar Halla, hin sterka og hefnigjarna, sem svarar svikum og ótryggð með því að leggja allt í rúst í kringum sig“ segir í auglýsingu um bókina frá 1991.

Eina ljóðabók sendi Auður frá sér undir nafninu Lúsamurlingar. Hana tileinkar höfundur minningu systur sinnar, Fjólu S. Ingvarsdóttur, og gaf bókina út sjálf. 

Auður hét fullu nafni Auður Helga Ingvarsdóttir og fæddist að Laxárnesi í Kjós 13. júní 1935. Auður giftist Sigurði Jóhannssyni, þau áttu fjögur börn en slitu samvistum. Auður var virk í Rithöfundasambandinu um sína daga. Hún hóf ung að yrkja og var ásamt systur sinni Fjólu virk í þeirri iðju. „Seinna meir þegar báðar voru orðnar húsmæður fóru mörg ljóðabréfin milli þeirra“ segir í minningargrein um Auði. Hún orti erfiljóð mörg og var lagtækur smásagnahöfundur. Auður Ingvars lést 24. maí 2012.

Mynd: Mbl.

Sjá grein um bækur Auðar


Ritaskrá

  • 1995 Lúsamurlingar
  • 1991 Hvenær kemur nýr dagur? Örlagasaga fólks
  • 1990 Mefistó á meðal vor. Furðuskáldsaga

Tengt efni