Eva Rún Snorradóttir
Eva Rún Snorradóttir er fædd árið 1982.
Eva Rún byrjaði snemma að yrkja en átta ára gömul var hún með kennara sem lét alla gera ljóð og færði hún foreldrum sínum heftaða bók sem bar titilinn Hamarinn og var „mjög dramatísk, sorgleg, myndskreytt ljóðabók í einriti.“ Eva Rún eyddi sínum bernsku- og unglingsárum í Breiðholtinu og fjalla fyrri ljóðabækur hennar öðrum þræði um þann tíma; Heimsendir fylgir þér alla ævi og Tappi á himninum.
Fyrsta prósaverk Evu Rúnar var sagnasveigurinn Óskilamunir sem kom út 2021.
Ásamt því að vera rithöfundur er Eva Rún sjálfstætt starfandi sviðslistakona. Hún er með BA gráðu í Leiklist – fræði og framkvæmd, frá Listaháskóla Íslands og hefur um árabil starfað með sviðslistahópnum Kviss búmm bang og 16 elskendum. Þá var Eva Rún annar listrænna stjórnanda alþjóðlegu leiklistarhátíðarinnar Lókal, 2019.
Eva Rún hlaut þann heiður að vera, ásamt Matthíasi Tryggva Haraldssyni, valin sem leikskáld Borgarleikhússins leikárið 2020-2021. Þá vann hún að sviðlistaverkinu Góða ferð inn í gömul sár sem byggir á heimildavinnu hennar um HIV faraldurinn. Verkið var frumsýnt í Borgarleikhúsinu í febrúar 2023.
Verk Evu Rúnar fjalla mörg hver um gömul sár og uppgjör við erfið mál, auk þess sem hún skrifar um hinsegin sambönd kvenna og vandkvæði þess að lifa í "hafsjó eðlileikans", eins og það er orðið í einni sögunni í Óskilamunum.
Myndin er sótt á vefsíðu Benedikts
Ritaskrá
- 2024 Eldri konur
- 2023 Góða ferð inn í gömul sár (sviðslistasverk)
- 2021 Óskilamunir
- 2018 Fræ sem frjóvga myrkrið
- 2016 Tappi á himninum
- 2013 Heimsendir fylgir þér alla ævi
Verðlaun og viðurkenningar
- 2019 Maístjarnan fyrir Fræ sem frjóvga myrkrið
Tilnefningar
- 2024 Til Fjöruverðlaunanna fyrir Eldri konur