SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Hallfríður Ólafsdóttir

Hallfríður fæddist í Reykjavík 12. júlí 1964.

Hallfríður var höfundur og listrænn stjórnandi fræðsluverkefnisins um Maxímús Músíkús. Bækur hennar um Maxímús hafa komið út á átta tungumálum. Vel yfir hundrað tónleikar byggðir á sögunum hafa verið haldnir af sinfóníuhljómsveitum víða um heim, m.a. í New York, Washington, LA, Berlín, Stokkhólmi, Kuala Lumpur og Melbourne. Hallfríður starfaði lengi með KÍTÓN – Félagi kvenna í tónlist og sat í fyrstu stjórn þess. Í febrúar 2020 stjórnaði hún hljómsveit sem flutti tónlist eftir gleymdar konur fyrri alda.

Hallfríður gekk í Kársnesskóla í Kópavogi og Kvennaskólann í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík. Hún lauk bæði einleikaraprófi og blásarakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og framhaldsprófum frá Royal Northern College of Music og Royal Academy of Music. Auk þess tók hún einkatíma í París. Hallfríður var leiðandi flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún er stofnandi kammerhópsins Camerarctica og sinnti uppfræðslu ungs tónlistarfólks, bæði í flautuleik, m.a. við Menntaskóla í tónlist, Tónlistarskóla Garðabæjar og Listaháskólann, og með þjálfun tréblásaradeilda ýmissa sinfóníuhljómsveita ungliða, m.a. Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Síðustu árin sinnti hún í auknum mæli hljómsveitarstjórn og stjórnaði tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna, Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins og bæði Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Austurlands, auk þess að hafa stjórnað ýmsum minni hópum. 

Hallfríður lést á líknardeild Landspítala, 4. september 2020.

Mynd: Forlagið


Ritaskrá

  • 2018 Maxímús Músíkús fer á fjöll
  • 2014 Maxímús Músíkús kætist í kór
  • 2012 Maxímús Músíkús bjargar ballettinum
  • 2010 Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann
  • 2008 Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2020  Heiðursviðurkenning frá Garðabæ fyrir mikilvægt framlag til menningar og lista
  • 2019  Heiðursviðurkenning útflutningsverðlauna forseta Íslands fyrir einstakt framlag til að auka hróður Íslands á erlendri grund
  • 2017  Eldhugi ársins frá Rótaryklúbbi Kópavogs
  • 2014   Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir frumkvöðlastarf í þágu tónlistarfræðslu
  • 2003 Bæjarlistamaður Garðabæjar
  • 2002   Heiðursnafnbótin Associate of the Royal Academy of Music í London