Hlín Agnarsdóttir
Hlín Agnarsdóttir leikskáld og rithöfundur er fædd í Reykjavík 1953.
Hlín er fjölmenntuð í leiklistar- og bókmenntafræðum, hefur post-graduate gráðu í leikstjórn frá Drama Studio í Lundúnum, fil.kand-próf í leiklistarfræðum frá Stokkhólmsháskóla og MA-próf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands.
Hlín hefur gefið út skáldsögur og sjálfsævisöguleg verk. Fyrir bókina Að láta lífið rætast var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis, árið 2003.
Hlín hefur skrifað fjölda leikrita fyrir leiksvið, útvarp og sjónvarp, m.a. toilettedramað Konur skelfa sem sýnt var við metaðsókn í Borgarleikhúsinu, og komið að öðrum handritaskrifum fyrir sjónvarp og aðra miðla. Hún hefur leikstýrt í öllum helstu leikhúsum landsins, m.a. hjá Leikfélagi Akureyrar, Leikfélagi Reykjavíkur og í Þjóðleikhúsinu. Hlín þýddi og leikstýrði Hræðileg hamingja eftir Lars Norén hjá Alþýðuleikhúsinu og síðar þýddi hún Laufin í Toscana fyrir Þjóðleikhúsið eftir sama höfund.
Hlín skrifaði Láttu ekki deigan síga, Guðmundur (ásamt Eddu Björgvinsdóttur) sem sýnt var í Stúdentaleikhúsinu við miklar vinsældir. Önnur verk sem hún hefur skrifað og jafnframt leikstýrt eru: Karlar óskast í kór, Alheimsferðir Erna og Gallerí Njála. Sokkabandið sýndi verk hennar Faðir vor í Iðnó 2004.
Á undanförnum árum hefur Hlín kennt ritlist og leiklist við Kvikmyndaskóla Íslands og Háskóla Íslands. Hún hefur ennfremur starfað sem leikstjóri og dramatúrg og verið leiklistargagnrýnandi á DV og í Kastljósi á RÚV.
Ritaskrá
- 2023 Einlífi - ástarrannsókn
- 2022 Yfirsjónir (smásögur)
- 2021 Meydómur: sannsaga
- 2020 Hilduleikur
- 2013 Oníuppúr
- 2012 Perfect
- 2012 Gestaboð Hallgerðar
- 2011 Flóttamenn
- 2010 Hallveig ehf
- 2009 Blómin frá Maó
- 2007 Fundarherbergið/Lífið liggur við
- 2004 Faðir vor
- 2003 Að láta lífið rætast: ástarsaga aðstandanda
- 2001 Hátt uppi við Norðurbrún
- 1998 Svannasöngur
- 1997 Gallerí Njála
- 1997 Aðeins einn
- 1996 Konur skelfa
- 1993 Alheimsferðir Erna
- 1993 Líflínan
- 1989 Karlar óskast í kór
- 1984 Láttu ekki deigan síga, Guðmundur
Tilnefningar
- 2003 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Að láta lífið rætast
Heimasíða
www.hlinagnars.is