Hugrún (Filippía S. Kristjánsdóttir)
Filippía Sigurlaug Kristjánsdóttir, betur þekkt undir nafninu Hugrún skáldkona, fæddist 3. október 1905 í Skriðu í Svarfaðardal. Foreldrar hennar voru Kristján Tryggvi Sigurjónsson bóndi að Skriðu og Brautarhóli í Svarfaðardal og kona hans Kristín Sigfúsína Kristjánsdóttir. Eftir Filippíu/Hugrúnu liggja a.m.k. 29 ritverk, mest ljóða- og barnabækur, en einnig nokkrar skáldsögur og minningarbrot úr bernsku.
Filippía ólst upp við algeng sveitastörf en snemma bar á einlægum áhuga hennar og hæfileika til að setja saman vísur, kvæði, leikrit og sögur og var hún sískrifandi frá því að hún var barn. Filippía hóf skólagöngu 10 ára eins og siður var og var kennt fram að fermingaraldri. Þá var unglingakennsla ekki lögboðin en bændur lögðu saman í púkk fyrir heimiliskennara fram að 15-16 ára aldri.
Filippía var kaupakona á ýmsum bæjum til að geta safnað sér peningum til að komast í skóla. Hún fór í Laugaskóla í Reykjadal, S-Þingeyjarsýslu tvo vetur rúmlega tvítug að aldri en smitaðist af berklum seinna árið. Þá fór hún suður til Reykjavíkur og vann þar við ýmis störf. Hún var virk í trúarlegu starfi og sótti samkomur. Þar kynntist hún fyrri manni sínum, Valdimar Jónssyni frá Stykkishólmi. Þaug giftust 1932 og bjuggu í Reykjavík til 1946 og vann Valdimar bæði sem stýrimaður á togara og við verkamannastörf. Þá fluttu þau til Akureyrar þar sem þau bjuggu í tíu ár og loks til Reykjavíkur 1956. Eftir lát Valdimars 1959 fluttist Filippía að Tómasarhaga í næsta hús við systur sína og aldraða móður og bjó í gömlum bæ sem stóð þar innan um ný og reisuleg steinhús, eins og notaleg áminning um liðna tíð.
Eftir að börn hennar voru uppkomin vann Filippía ýmis störf, einkum verslunarstörf og við útvarpsþáttagerð en hún var þekkt útvarpskona og las sjálf margar af sögum sínum, frásögnum og ljóðum í Ríkisútvarpið. Hennar helsta viðfangsefni alla tíð auk heimilis- og uppeldisstarfa voru ritstörf og var hún afkastamikill rithöfundur. Hún samdi bæði ljóð, sögur og leikrit og gaf út meira en þrjá tugi bóka um ævina, þá síðustu hálfníræð. Sögur hennar voru ýmist fyrir börn eða fullorðna og átti hún sér dyggan lesendahóp. Hún var félagi í Rithöfundasambandi Íslands og naut styrks úr starfslaunasjóði listamanna um margra ára skeið og var jafnframt úthlutað úr Rithöfundasjóði Íslands til ritstarfa. Hún naut þess að ferðast og víkka sjóndeildarhringinn og kynnast öðrum þjóðum og löndum, taldi það nauðsynlegt fyrir sig sem rithöfund og las hún oft í útvarp frásagnir af ferðalögum sínum. Hún gerði ótrúlega víðreist og hefur það hvorki verið auðvelt eða alvanalegt fyrir húsmóður og þriggja barna móður á þeim tíma. Hún fór oft til Norðurlandanna, var t.d. á lýðháskóla í Askov í Danmörku og hafði mikla ánægju af, fór á heimssýninguna í Montreal í Kanada 1967 og einnig til Bandaríkjanna. Síðar fór hún á slóðir Vestur-Íslendinga í Kanada. Hún fór til Austurlanda nær, á Biblíuslóðir, sat á úlfalda við pýramídana í Egyptalandi og litaðist um í Beirút meðan sú borg var enn óskemmd af stríði og óeirðum. Hún var hrifin af Ítalíu og átti góðar minningar frá Napólí og Sorrento. Seinna heimsótti hún son sinn og fjölskyldu hans í London þar sem þau bjuggu um nokkurra ára skeið og síðasta utanlandsferð Filippíu var til Írlands.
Meðan Filippía bjó á Tómasarhaga kynntist hún seinni manni sínum, Einari Eiríkssyni, þau giftust 1971, bjuggu á Baldursgötu og á vistheimili aldraðra að Seljahlíð við Hjallasel. Filippía lést 8. júní 1996 í Reykjavík.
Stór hluti af skáldsögum, frásögnum og ljóðum Filippíu/Hugrúnar eiga rætur sínar í Svarfaðardal og eitt af ljóðum hennar um dalinn hafa Svarfdælingar gert að héraðssöng sínum. Ekki fékk Hugrún alltaf góða dóma fyrir bækur sínar og þótti sumum gagnrýnendum sem hún léti trúboð yfirgnæfa listina.
Málþing var haldið um skáldkonuna 2011, á Dalvík, ásamt sýningu á nokkrum munum úr eigu hennar.
Hér má heyra Filipíu fara með kvæði og þulur.
Heimildir
Guðrún Agnarsdóttir (minningargrein í Mbl.)
Mynd af Hugrúnu er af bokin.is
Ritaskrá
- 1993 Sögur íslenskra kvenna 1879-1960 (bls. 667-672, 956-7, 975)
- 1987 Leyndarmálið í Engidal (skáldsaga)
- 1982 Ég læt það bara flakka (æviminningar)
- 1980 Skelfing er heimurinn skrýtinn
- 1977 Strengjakliður (ljóðabók)
- 1975 Farinn vegur (æviminningar Vigdísar Kristjánsdóttur og Gunnhildar Ryel)
- 1975 Draumurinn um ástina (skáldsaga)
- 1973 Haustblóm (ljóðabók)
- 1970 Anna Dóra og Dengsi (barnabók)
- 1967 Perlubandið
- 1966 Strokubörnin (barnabók)
- 1965 Draumar og vitranir
- 1963 Dætur fjallkonunnar (æviminningar Sigríðar Sveinsdóttur og Önnu Margrétar)
- 1962 Sagan af Snæfríði prinsessu og Gylfa gæsasmala (barnabók)
- 1961 Fanney á Furuvöllum (skáldsaga)
- 1958 Fuglar á flugi (ljóðabók)
- 1958 Stefnumót í stormi (smásögur)
- 1956 Hafdís og Heiðar, II. (barnabók)
- 1955 Ágúst í Ási (skáldsaga)
- 1953 Hafdís og Heiðar, I. (barnabók)
- 1951 Úlfhildur (skáldsaga)
- 1951 Hvað viltu mér? (barnabók)
- 1949 Vængjaþytur (ljóðabók)
- 1947 Hver gægist á glugga? (barnabók)
- 1945 Hvað er á bak við fjallið? (barnabók)
- 1944 Við sólarupprás (smásögur)
- 1942 Stjörnublik (ljóðabók)
- 1941 Mánaskin (ljóðabók)
Verðlaun og viðurkenningar
Hugrún naut skáldalauna um tíma.