Ingibjörg Haraldsdóttir
Ingibjörg Haraldsdóttir fæddist í Reykjavík 21. október 1942 og ólst þar upp.
Eftir stúdentspróf stundaði hún nám við Kvikmyndaskóla ríkisins í Moskvu og lauk Mag. art prófi í kvikmyndastjórn þaðan 1969. Hún starfaði sem aðstoðarleikstjóri við leikhúsið Teatro Estudio í Havana á Kúbu frá 1970–1975. Hún skrifaði og þýddi blaðagreinar, aðallega fyrir Þjóðviljann, meðan hún dvaldi í Sovétríkjunum og á Kúbu. Eftir heimkomuna til Íslands í árslok 1975 vann hún sem blaðamaður og kvikmyndagagnrýnandi á Þjóðviljanum um árabil.
Frá 1981 var Ingibjörg ljóðskáld og þýðandi að aðalstarfi, en fyrsta ljóðabók hennar, Þangað vil ég fljúga, kom út árið 1974. Ingibjörg gaf út sjö ljóðabækur, þar af tvær safnbækur, og hafa ljóð hennar verið þýdd á ungversku, þýsku, lettnesku, litháísku, búlgörsku, rússnesku, slóvakísku, ensku og Norðurlandamál.
Ingibjörg orti gjarnan um eigin reynslu en um leið orðaði hún líf og hugsanir sinnar kynslóðar kvenna. Í ljóðunum er hún orðvör og sagði oft meira en minna með fáum en vel völdum orðum. Yrkisefni Ingibjargar voru margskonar, meðal annars bernska, heimþrá, tilvistin, ástin, hverfulleikinn, óttinn við það karllæga og ofbeldi, andstæða við her og hernaðarbrölt. Þá orti hún oft um veruleika kvenna og sýndi gjarnan hversdagsleikann í nýju og óvæntu ljósi. Sum ljóðin fjalla um togstreitu þess að sinna barnauppeldi, heimilisstörfum, vinnu og að þrá að skapa og skálda. Hún orti einnig um lífið úti í löndum og eins hvernig það var að flytjast aftur heim og upplifa sjálfan sig sem útlending í eigin landi.
Eitt helsta stílbragð Ingibjargar er endurtekningin sem oft er studd af upptalningu. Hún notaði gjarnan óreglulega stuðlasetningu og jafnvel rím til að styðja við ákveðna hrynjandi. Þá eru mörg ljóða hennar ákaflega írónísk.
Ingibjörg var afkastamikill þýðandi, aðallega úr spænsku og rússnesku. Hún þýddi meðal annars skáldsögur eftir Dostojevskí og Búlgakov, fjölda leikrita eftir ýmsa höfunda og þýðingar hennar á ljóðum og smásögum spænsku- og rússneskumælandi höfunda birtust í tímaritum og voru fluttar í útvarpi. Hún hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, meðal annars Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar, Íslensku bókmenntaverðlaunin, Menningarverðlaun DV fyrir þýðingu sína á Fávitanum eftir Dostojevskí og Íslensku þýðingarverðlaunin 2004 fyrir Fjárhættuspilarann eftir sama höfund. Þá var hún tvisvar tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, 1993 og 2004.
Ingibjörg sat í stjórn Rithöfundasambands Íslands frá 1992–1998 og var formaður sambandsins frá 1994–1998. Hún var í ritnefnd Tímarits Máls og menningar frá 1977 og var aðstoðarritstjóri tímaritsins frá 1993-2000. Hún átti sæti í ritnefnd tímarits þýðenda, Jón á Bægisá.
Ingibjörg lést í nóvember árið 2016.
Heimild:
Silja Aðalsteinsdóttir, „Módernt raunsæi“, Íslensk bókmenntasaga V, ritstjóri Guðmundur Andri Thorsson, Reykjavík: Mál og menning, 2006, bls. 138-173, hér bls. 166-171.
Ritaskrá
- 2009 Ljóðasafn
- 2007 Veruleiki draumanna: endurminningar
- 2002 Hvar sem ég verð
- 1995 Höfuð konunnar
- 1991 Ljóð
- 1989 Nú eru aðrir tímar
- 1983 Orðspor daganna
- 1974 Þangað vil ég fljúga
Eftir Ingibjörgu liggja einnig fræðigreinar og ljóð í safnritum og tímaritum.
Verðlaun og viðurkenningar
- 2010 Kjörin heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands
- 2004 Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir Fjárhættuspilarann eftir Fjodor Dostojevskí
- 2003 Borgarlistamaður Reykjavíkurborgar
- 2002 Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Hvar sem ég verð
- 2002 Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu: fyrir störf í þágu íslenskra bókmennta
- 2000 Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar
- 1988 Menningarverðlaun DV í bókmenntum fyrir Fávitann eftir Fjodor Dostojevski
Tilnefningar
- 2004 Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Hvar sem ég verð
- 1995 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Höfuð konunnar
- 1993 Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Nú eru aðrir tímar
- 1989 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Nú eru aðrir tímar
Þýðingar
Þýðingar Ingibjargar
- 2018 Fjodor Dostojevskíj: Hinir smánuðu og svívirtu (með Gunnari Þorra Péturssyni)
- 2004 Fjodor Dostojevskíj: Fjárhættuspilarinn
- 2004 Vasílij Sígarjov: Svört mjólk
- 2001 Tomas Tranströmer: Sorgargondóll og fleiri ljóð
- 2000 Fjodor Dostojevskíj: Djöflarnir
- 2000 Anton Tsjekhov: Kirsuberjagarðurinn
- 1998 Ivan Túrgenjev: Feður og synir
- 1997 Fjodor Dostojevskíj: Minnisblöð úr undirdjúpunum
- 1994 Fjodor Dostojevskíj: Tvífarinn: Pétursborgarbálkur
- 1993 Ljúdmíla Petrúshevskaja: Ódauðleg ást
- 1992 Mikhaíl Búlgakov: Hundshjarta
- 1990-1991 Fjodor Dostojevskíj: Karamazovbræðurnir
- 1989 Anatoli Rybakov: Börn Arbats
- 1989 Mikhaíl Bulgakov: Örlagaeggin
- 1987 Anton Tsjekhov: Vanja frændi: atriði úr sveitalífinu
- 1986-1987 Fjodor Dostojevskíj: Fávitinn
- 1986 Fjöður Hauksins hugprúða og fleiri rússnesk ævintýri
- 1984 Fjodor Dostojevskíj: Glæpur og refsing
- 1982 Manuel Scorza: Hinn ósýnilegi
- 1981 Mikhaíl Búlgakov: Meistarinn og Margaríta
- 1980 Rancas – þorp á heljarþröm
Þýðingar á verkum Ingibjargar (í vinnslu)
- 2002 Vart än det bär (John Swedenmark þýddi á sænsku)
- 2001 Reykjaviki esö (Ferenc Mervel þýddi á ungversku)