SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóhanna Þráinsdóttir

Jóhanna Þráinsdóttir fæddist í Reykjavík 5. maí 1940. Foreldrar hennar voru Hulda Einarsdóttir Markan og Þráinn Sigfússon. Jóhanna átti eina alsystur, Bergljótu Kristínu (1938-1969). Móðir þeirra systra yfirgaf þær þegar Jóhanna var þriggja mánaða og ólst hún upp hjá fóstru sinni, Jóhönnu Guðrúnu Steinsdóttur (1883-1957). Jóhanna átti einn son, Jóhann (f. 1959) með Gylfa Gröndal, skáldi og rithöfundi. Hún giftist síðar Guðjóni Sævari Jóhannessyni lækni sem var mikill áhugamaður um málfræði og tungumál, þau skildu en vinátta þeirra hélst til æviloka.

Jóhanna lauk stúdentsprófi frá MR 1960. Hún stundaði nám í tékknesku og leikhúsfræðum við háskólann í Prag 1964-1966 og nám í þýsku og leikhúsfræðum við Vínarháskóla frá 1966 og lauk þaðan prófi 1968. Hún lagði stund á uppeldisfræði við Háskólann í Lundi og síðar við Háskóla Íslands og lauk BA-prófi í norsku og uppeldisfræði 1983. Hún kenndi í nokkur ár á Akureyri og Akranesi, vann um skeið að ferðamálum við leiðsögn og ráðstefnuhald og var deildarstjóri á Ferðaskrifstofu Íslands. Einnig var hún um tíma blaðamaður á Dagblaðinu og Vikunni.

Árið 1975 sendi hún frá sér skáldsöguna Útrás. Þar segir frá Jennýju sem missir manninn sinn af slysförum. Hjónaband þeirra byggir á blekkingu og hún varpar sér út í hringiðu skemmtanalífsins. Frásögnin öll einkennist af dirfsku og hugmyndaauðgi og sjálfri þótti Jóhönnu vissara að taka fram i viðtali að þetta væri ekki klámsaga.

Frá 1983 vann Jóhanna við þýðingar, einkum fyrir sjónvarp, og þýddi m.a. Póstinn Pál (og köttinn Njál) sem allir þekkja. Hún hafði ensku, sænsku, þýsku og tékknesku algerlega á valdi sínu. Smásögur og greinar eftir hana hafa birst í blöðum og tímaritum. Hún fjallaði um þýðingar í tímaritinu Jón á Bægisá og var einn þriggja höfunda að vefnum Orð í mynd (2000) sem er alhliða handbók fyrir skjátextagerðarmenn og þýðendur myndefnis. Þar er líka rakin saga skjátexta á Íslandi. 

Árið 1996 hóf hún nám í guðfræði við Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi og vann að rannsóknum og þýðingum sem tengdust náminu. Hún fjallaði um Magnús Eiríkssson, guðfrœðing, og framlag hans til réttinda kvenna en hann var  fyrstur karla á Norðurlöndum til að gefa út rit (1851) til varnar kvenfrelsi og ritaði grein um gagnrýni hans á trúarskoðunum Kierkegaards í Ugg og ótta. Einnig rannsakaði hún þýðingu síra Jóns Þorlákssonar á uppeldisriti eftir J.B. Basedow frá átjándu öld og birti í Ritmennt, 2004. Þá þýddi hún Greiningu sálarinnar, sem er eitt af ritum þeim sem fundust í Nag Hammadí á Egyptalandi 1945, og skrifaði um konur og kvengervinga sem þar birtast (1998). Stærsta afrek hennar er þýðing á bókinni Uggur og ótti eftir Søren Kierkegaard sem út kom út í flokki lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags árið 2000. 

Ævi Jóhönnu er að hluta fyrirmynd í Sögu Ástu (2017) eftir Jón Kalman Stefánsson en hann er sonur Bergljótar Kristínar, systur Jóhönnu. 

Jóhanna lést þann 27. nóvember 2005.

Mynd af Jóhönnu: mbl.is


Ritaskrá

  • 1975 Útrás

Þýðingar

2002 Bókin um viskuna og kærleikann. Dalai Lama

2001 Leiðin til lífshamingju. Dalai Lama og Howard C. Cutler

2000 Uggur og ótti, Søren Kierkegaard

1999 Menning fornþjóða. Þýddi ásamt Guðjóni S. Jóhannessyni

1999 Saga veraldar, við upphaf nýrrar aldar. Anita Ganeri o.fl. Þýddi ásamt Helgu Þórarinsdóttur

1998 Greining sálarinnar, Ritröð Guðfræðistofnunar, 9. tbl.

1989 Aftur um áratug. Wang Zhifu (óútgefið útvarpsleikrit)

1988 Aukaleikarinn. Andreas Anden (óútgefið útvarpsleikrit)

1979 Árin okkar Gunnlaugs. Grete Linck Grönbech

1978 Til minningar um prinsessu. Ruth M. Arthur (útvarpssaga)

1974 Síðasti tangó í París. Robert Alley

1973 Sólskinsdagar sumarið 42. Herman Rauch