SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Margrét Sigurðardóttir frá Saurhóli

Margrét Sigurðardóttir fæddist á Saurhóli í Dalasýslu 7. október 1854 og lést þann 19. september árið 1940. Margrét giftist Bæring Jónssyni en þau bjuggu um stund á Laugum í Hvammssveit. Síðar voru þau í húsmennsku á ýmsum bæjum í sveitinni og stundaði þá Bæring atvinnu til sjós og lands, fjölskyldunni til framdráttar. Þau hjón eignuðust 12 börn og náðu 10 fullorðinsaldri. Árið 1900 andaðist Bæring, aðeins 45 ára gamall, en þremur mánuðum eftir lát hans eignaðist Margrét síðasta barnið sem dó fárra vikna. Eftirfarandi ljóð mun hún hafa ort eftir lát eiginmannsins:

Hart er stríð í heiminum
hrygg má sálin játa.
Best það svalar sorgmæddum
sína neið að gráta.
 
Hvergi er friður hvíld né ró
kulda má ég þola.
Yfir lífsins ólgu sjó
öldurnar mér skola.
 
Hér ég hvergi hæli í næ,
hrakning mæti jöfnum,
þar til að ég frelsuð fæ
friðarlands ná höfnum.
 
Og þá hraknings endar kíf,
angrið skjótt mun lina.
Guð af náð mér gefur líf,
gleði og sambúð vina.

Heimili hjónanna var leyst upp eftir andlát Bærings og börnin fóru til vandalausra hér og þar. Margrét fór þá í húsmennsku að Knarrarhöfn og hafði með sér tvær dætur sínar, Sesselju á 9. ári og Ingunni á 2. ári en Ingunn lést skömmu eftir að mægðurnar fluttu þangað. Árið 1903 fór Margrét að Hafurstöðum til Jónínu dóttur sinnar sem það ár hóf búskap með Jóni Eiríkssyni manni sínum. Sesselja, dóttir hennar, fór í vinnumennsku 14 ára gömul og eftir það var Margrét ein og gekk til verka á Hafurstöðum. Einnig ferðaðist hún á milli bæja og saumaði karlmannsföt og kvenreiðföt "með tveimur nálum, þar til hún gat eignast saumavél". Í áraraðir saumaði hún kven- og karlmannsföt og fleira í Hvammssveit og á Fellsstönd. En henni var fleira til lista lagt því hún smíðaði aska og spæni og skar þá út. Langt fram á elliár vann hún við að klippa hár manna í sveitinni. 

Í minningargrein í Morgunblaðinu sem skrifuð var um Sesselju dóttur hennar segir að Margrét hafi verið "vel greind og ágætur hagyrðingur". Og í formála að Vísnakveri Margrétar Sigurðardóttur frá Saurhóli, sem gefið var út af Lionsklúbbi Búðardals árið 1986, segir: "Margrét var hreinlynd kona. Sagði sína meiningu umbúðalaust, þó að hún notaði ekki stór orð og mætti aldrei heyra fjarstöddum manni hallmælt. Hún var sterk persóna, sem fólk bar ósjálfrátt virðingu fyrir og sýndi það í framkomu sinni gagnvart henni. Það lýsir henni kannski á vissan hátt, að þegar börnin voru öll vaxin úr grasi þá lét hún þá fjármuni sem hún aflaði, ganga til Hvammshrepps til greiðslu á skuld sem safnast hafði meðan hún þurfti að þiggja af sveit. Glöð varð hún þegar Guðjón á Kýrunnarstöðum afhenti henni kvittun fyrir greiðslu skuldarinnar, en hann var þá oddviti Hvammshrepps."

Heimild:

Vísnakver Margrétar Sigurðardóttur frá Saurhóli. Útgáfu önnuðust: Kristinn Jónsson og Kjartan Eggertsson. Formála ritaði Margrét Sigurðardóttir frá Köldukinn. Búðardalur: Lionsklúbbur Búðardals, 1986.


Ritaskrá

  • 1986 Vísnakver Margrétar Sigurðardóttur frá Saurhóli

Tengt efni