SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm

Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm fæddist árið 1845 á Kálfafellsstað í Suðursveit. Móðir hennar var Guðríður Torfadóttir og faðir Þorsteinn Einarsson prestur.

Torfhildur flutti 17 ára til Reykjavíkur og fékk þar kennslu í tungumálum, hannyrðum og teikningu. Árið 1866 sigldi hún til Kaupmannahafnar til frekara náms í tungumálum og hannyrðum. Þegar Torfhildur sneri aftur heim starfaði hún um stund sem einkakennari en fluttist síðan aftur í Suðursveit.

1872 flutti hún ásamt systur og mági á Skagaströnd. Þar kynntist hún Jakobi Hólm sem hún giftist árið 1874. Hjónabandið varði þó stutt því ári síðar lést Jakob og var Torfhildur einhleyp og barnlaus eftir það.

Rúmlega þrítug flutti Torfhildur vestan hafs og bjó þar í þrettán ár. Í vesturheimi sinnti hún einkum ritstörfum og skrásetti þjóðsögur og sagnir sem hún safnaði meðal íslensku landnemanna.

Torfhildur er brautryðjandi á mörgum sviðum. Hún varð fyrsti Íslendingurinn til þess að gerast atvinnurithöfundur. Hún var fyrst kvenna til að hljóta styrk frá alþingi. Hún hlaut hann fyrst árið 1891 og var hann þá að upphæð 500 krónur. Hins vegar voru ekki allir sáttir við að kona fengi skáldastyrk og var hann því lækkaður í 200 krónur og kallaður ekknastyrkur.

Torfhildur var fyrsti íslenski rithöfundurinn til að skrifa sögulegar skáldsögur. Þá varð hún einnig fyrst íslenskra kvenna til þess að gefa út og ritstýra tímariti. Hún gaf úr ársritið Draupni árin 1891-1908, ársritið Tíbrá sem var ætlað börnum árin 1892-1893 og mánaðarritið Dvöl gaf hún út á árunum 1901-1917.

Torfhildur Hólm bjó á Ingólfsstræti 18 síðustu árin og lést árið 1918 úr spænsku veikinni.


Ritaskrá

  • 1949-50  Ritsafn: Jón biskup Arason, Brynjólfur Sveinsson biskup
  • 1889  Barnasögur
  • 1889  Elding
  • 1889  Högni og Ingibjörg
  • 1886  Kjartan og Guðrún
  • 1886  Smásögur handa börnum og unglingum
  • 1884  Sögur og ævintýri
  • 1882  Brynjólfur Sveinsson biskup: Skáldsaga frá 17. öld