Viktoría Bjarnadóttir
Viktoría fæddist á Bíldudal 1888. Foreldrar hennar voru Bjarni Friðriksson skipstjóri og kona hans Jónína Eiríksdóttir. Viktoría átti einn bróður sem drukknaði árið 1917. Hún bjó við mikið ástríki foreldranna og bjó alla tíð með þeim, að undanskildum fjórum árum.
Viktoría dvaldi einn vetur í Reykjavík þar sem hún vann á saumastofu og kynntist Reykjavíkurlífinu af eigin raun áður en hún gifti sig fyrir vestan, Sigurgarði Sturlusyni Hólm, sem var tuttugu árum eldri en hún. Þau eignuðust tólf börn. Eftir að Viktoría var orðin ekkja, árið 1932, flutti hún aftur til Reykjavíkur, 44 ára gömul, með aldraðan föður sinn. Þar stofnaði hún prjónastofuna Iðunni sem hún rak í meira en áratug en seldi síðan og fór að sinna öðru.
Viktoría var mjög virk í félagsmálum, ekki síst bindindismálum, og um árabil var hún formaður Áfengisvarnarnefndar kvenna í Reykjavík og Hafnarfirði.
Vökustundir að vestan, endurminningar Viktoríu, er eina bókin sem hún sendi frá sér. Hún mun hafa ætlað sér að skrifa framhald bókarinnar og segja þar frá lífi sínu í Reykjavík en af því varð því miður ekki.
Viktoría lést í Reykjavík 7. október 1963.
Heimildir:
Íslenskar konur – ævisögur (Ragnhildur Richter ritstýrði og skrifaði inngang), Reykjavík: Mál og menning, 2002.
Ritaskrá
- 1958 Vökustundir að vestan