ÁHUGAVERÐAR BÆKUR 2019
Árið 2019 var óvenju gjöfult bókaár. Mörg góð rit rötuðu á náttborðið og var býsna erfitt að gera upp á milli þeirra. Hér er því farin sú leið að tína til nokkrar áhugaverðar bækur sem hlutu ekki náð fyrir augum einhverra dómnefnda en eru allrar athygli verðar:
Sterkasta kona í heimi
Steinunn G. Helgadóttir
JPV útgáfa
Steinunn G. Helgadóttir er löngu búin að geta sér gott orð fyrir líflegan stíl og áhugaverða persónusköpun en hún hlaut Fjöruverðlaunin árið 2017 fyrir skáldsöguna Raddir úr húsi loftskeytamanns. Henni bregst ekki bogalistin í þessari bráðskemmtilegu bók Sterkustu konu í heimi sem fjallar um systkinin Gunnhildi og Eiði. Eiður gerist aðgerðarsinni og vegan kokkur en Gunnhildur verður vinsæll líksnyrtir sem spjallar fjálglega við líkin og aðstandendur um sögu þeirra, auk þess sem hún er með ofurkrafta. Skáldsagan geymir ádeilu í bland við húmor og er sérlega skemmtilega unnið með dauðann í sögunni.
Undrarýmið
Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Mál og menning
Sigurlín Bjarney Gísladóttir hefur vakið athygli fyrir ljóð sin en bók hennar Tungusól og nokkrir dagar í maí var tilnefnd til Maístjörnunnar árið 2017. Undrarýmið er sjöunda bók Sigurlínar Bjarneyjar og er hún allsérstök fyrir það að vera prýdd myndum úr fornum ritum um náttúru- og læknisfræði sem virðast eiga fátt sameiginlegt með ljóðrænu. Þetta samspil gengur þó vel upp og nær að skapa einhver seiðandi áhrif. Það eru dregnar upp óvæntar myndir og fallegar sem verða enn ljóðrænni en ella í þessu myndskreytta samhengi. Undrarýmið er afar falleg bók sem kemur mjög á óvart.
Vetrargulrætur
Ragna Sigurðardóttir
Mál og menning
Ragna Sigurðardóttir hefur sent frá sér ellefu verk og var skáldsagan Borg tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1993. Smásagnasafnið Vetrargulrætur fékk einnig mikla athygli þegar það kom út í fyrra. Smásögurnar eru fimm talsins og í raun engar smá sögur, hvorki að lengd né efni. Sögurnar eru frá ýmsum stöðum og tímum og eru ólíkar að efni en eiga það allar sammerkt að fjalla um einhvers konar átök. Þær hefjast í nútímanum og segja einkum af fólki úr listheiminum en færast síðan aftur til blinds unglings á 18. öld. Sögurnar eru vel skrifaðar og áhrifarík lesningin situr lengi vel í lesandanum á eftir.
Mamma, má ég segja þér?
Eyrún Ósk Jónsdóttir
Bjartur
Eyrún Ósk Jónsdóttir hefur lengi látið sig friðarmál mjög varða og hverfist ljóðabókin Mamma, má ég segja þér? um kærleika, frið og ást. Eyrún Ósk fékk sérstaka viðurkenningu Ljóðstafs Jóns úr Vör fyrir samnefnt ljóð bókar Mamma má ég segja þér? og hefur hún áður hlotið fjölda verðlauna og viðurkenningar fyrir verk sín. Ljóðabókin Mamma, má ég segja þér skiptist í þrjá kafla og nefnist sá fyrsti Stríð, friður og skæru-velgjörðir, annar kaflinn heitir Berum kærleikanum vitni og sá þriði ber titilinn Silfurbjöllur og regnbogar. Kaflaheitin eru afar lýsandi fyrir fallegan boðskapinn. Mörg ljóðanna bera það með sér að vera útpæld og eru firnasterk.
Mislæg gatnamót
Þórdís Gísladóttir
Benedikt bókaútgáfa
Þórdís Gísladóttir er afkastamikill rithöfundur og þýðandi og hefur hún hlotið ófá verðlaun og tilnefningar fyrir verk sín. Þá hefur hún fyrir löngu getið sér gott orð fyrir hnyttileg skrif sín, fyrir bæði börn og fullorðna. Það er óhætt að segja að hún sé með skemmtilegri pennum landsins og skilar það sér vel í ljóðabókinni Mislægum gatnamótum. Bókin er fimmta ljóðabók Þórdísar og geymir 34 ljóð. Þau eru af ýmsu efni; örsögur af hversdagslegum og íronískum atburðum í bland við óvenjulegar upptalingar eða minnislista. Þarna er margt býsna skemmtilegt og frumlegt á ferð, líkt og búast mátti við úr ranni Þórdísar.
Einsamræður
Birta Þórhallsdóttir
Skriða
Einsamræður er fyrsta bók Birtu Þórhallsdóttur og sá Skriða um útgáfuna en forlagið rekur samnefndur köttur ásamt Birtu. Stöku ljóð og sögur eftir Birtu hafa þó áður birst í bókunum Tímaskekkjur og Jólabókum Blekfjelagsins. Birta hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir drög að handritinu árið 2016 og er það ennfremur hluti af lokaverkefni hennar í MA námi í ritlist. Það er heldur enginn byrjendabragur á bókinni. Einsamræður geymir vel skrifaðar og skemmtilegar örsögur sem eru í senn hugvitsamlegar og forvitnilegar. Örsögurnar eru 21 talsins; sumar sprottnar úr íslenskum veruleika, aðrar meira framandi. Þá er húmorinn jafnan skammt undan. Hér er athugull sögumaður á ferð um ýmsa áhugaverða kima mannlífsins.
Systa – bernskunnar vegna
Vigdís Grímsdóttir
Benedikt bókaútgáfa
Vigdís Grímsdóttir er afkastamikill rithöfundur og hefur hún hlotið fjölda viðurkenninga fyrir ritstörf sín. Meðal annars hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1994 fyrir skáldsöguna Grandaveg 7.
Systa – bernskunnar vegna fjallar um Sigrúnu Sveinbjörnsdóttur prófessor í sálfræði. Sigrún segir söguna en Vigdís stýrir pennanum. Sigrún hefur unnið afar mikilvægar rannsóknir á líðan unglinga og sér þess stað í bókinni þar sem samfara einlægri frásögn hennar af uppvexti sínum og uppátækjum er fræðileg nálgun á spjörun unglinga og bjargráð. Systa – bernskunnar vegna er afar vel skrifuð, falleg og ekki hvað síst fróðleg bók
Kvika
Þóra Hjörleifsdóttir
Mál og menning
Kvika er fyrsta bók Þóru Hjörleifsdóttur, sem hún stendur að ein, en hún hefur áður tekið þátt í að skrifa og gefa út bækur með Svikaskáldum. Þóra er með meistaragráðu í ritlist og var lokaverkefni hennar sannsöguleg skáldævisaga um „firringu ástarinnar, birtingarmyndir ofbeldis og mörk og markaleysi í klámvæddu samlífi ungs fólks“. Hér er sleginn tónninn fyrir Kviku en hún dregur upp afar raunsanna og berorða mynd af ofbeldissambandi. Bókin er stutt og auk þess skipt upp í mjög hnitmiðaða og oft ljóðræna kafla. Þetta er áhrifamikil saga um samband ungs fólks sem er gegnsýrt af klámvæðingu, hvers kyns niðurlægingu og ofbeldi, og sjúklegri meðvirkni.