SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Þ. Guðmundsdóttir

Steinunn Þorbjörg Guðmundsdóttir var fædd 9. desember árið 1900 í Hjallatúni í Tálknafirði. Foreldrar hennar voru Guðmundur Björnsson búfræðingur og kennari og kona hans Helga Jónsdóttir frá Suðureyri. Margrét hét amma Helgu og var systir Jóns Sigurðssonar forseta. Steinunn - eða Bogga, eins og hún var oftast nefnd - var yngst sex systkina.

Steinunn naut ekki mikillar skólagöngu í æsku fremur en títt var um unglinga á hennar aldri. Hún fluttist með foreldrum sínum að Bíldudal og kostaði sig sjálf í skóla vetrarlangt á Hvítárbakka hjá séra Eiríki Albertssyni. Á þrítugsaldri fluttist Steinunn til Reykjavíkur, var þar vinnukona og vann í fiski og við önnur störf sem til féllu. Í Reykjavík kynntist hún Guðjóni Þorsteinssyni, þau hófu sambúð og áttu tvo syni.

Steinunn hafði yndi af náttúruskoðun, sagt er að hún hafi þekkt ótölulegan fjölda blóma og safnað litfögrum steinum. Hrein náttúra og margbreytilegt landslag veitti henni innblástur til að miðla öðrum af reynslu sinni og hugsýnum í ljóðum og ljóðrænu máli óbundnu. Skrifum sínum flíkaði hún þó ekki fyrr en hún var komin um sjötugt. 

Árin 1970 og 1971 birtust verðlaunasögur hennar „Bláa skelin" í Eimreiðinni og „Myndir minninganna" í tímaritinu Heima ber bezt. Ljóð Steinunnar,  sögur og frásagnir birtust í blöðum og tímaritum, þar á meðal ritgerðin „Skóli reynslunnar svíkur engan..." í Sjómannablaðinu Víkingi 1977. Sú ritgerð, sem lýsir lífi sjómanna og er reist að hluta á sögu og sögnum, hafði hlotið viðurkenningu í verðlaunasamkeppni Sjómannadagsráðs, og þótti óvenjulegt að kona skyldi vinna til viðurkenningar fyrir ritgerð um slíkt efni, ritar Jón Ólafsson í minningargrein um skáldkonuna í Þjóðviljanum, 5. janúar 1986. Í greininni kemur fram að til eru í handriti skáldsaga eftir Steinunni, ljóðasafn og myndskreytt ævintýri. Annars er ekki mikið til af heimildum um skáldkonuna og eru frekari upplýsingar vel þegnar.

Steinunn lést 28. desember 1985. Ári síðar gáfu aðstandendur út ljóðasafn hennar og barnasögu eftir hana.


Ritaskrá

  • 1986 Rauðu stígvélin hans Gjafars litla
  • 1986 Ljóð
  • 1979  Niður fljótsins
  • 1976 Í svölum skugga
  • 1972 Dögg í spori