SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir10. apríl 2024

LJÓÐ SÓLVEIGAR PÁLSDÓTTUR FRÁ NIKU

Sólveig Pálsdóttir sem fæddist í Nikulásarhúsum í Fljótshlíð árið 1911 gaf aðeins út eina ljóðabók og kallaði Hvundagsljóð (1984). Hún fékkst við ljóðagerð svo til ævina alla en hafði líklega ekki mikla möguleika á að koma ljóðum sínum á bók, þótt mörg þeirra birtust í blöðum og tímaritum og seinna í safnritum. En ári fyrir andlát sitt tókst Sólveigu að koma út bók með úrvali ljóða sinna.

Eins og vænta má af konu af hennar kynslóð yrkir Sólveig í hefðbundnu formi og augljóst er að hún hefur mjög góð tök á ljóðmáli og formi. Hún  yrkir mikið um bernskuslóðir sínar, til dæmis í ljóðinu "Í Fljótshlíðinni" sem telur hvorki meira né minna en 22 erindi. Ljóðið hefst svona:

 

Fljótshlíðin var mín fæðingarsveit
með fegurð sína og gróður
um  hana vildi ég yrkja ljóð
eins og barn til móður
 
Þar eru brekkur með blómin svo fögur
blágresi og mjaðarjurt
lækirnir hoppandi stall af stalli
streymandi fram hjá og burt.
 
Þarna lifði ég mín uppvaxtar ár
ýmist við leik eða að vinna
gaf í fjósið og gætti fjár
það var gaman þeim verkum að sinna.

 

Í ljóðabók Sólveigar eru tíu ljóð um fugla en það er með öllum líkindum nokkuð sérstakt hversu mikið íslensk skáld yrkja um fugla, ekki síst farfugla; koma þeirra boðar vorið og fuglasöngur vekur upp von og gleði í brjóstum flestra manna. Fuglar koma líka við sögu í ofan nefndu ljóði um Fljótshlíðina, þar segir:

 

Lóan var komin til landsins
þessi lífsglaða elskandi sál
og rjúpan var sest að í rimanum
að ræða sín hjúskapar mál.
 
Hrafninn var víða á vakki þar
og verpti í drang sem hét Örn
annasamt var það og erfitt
að annast hans gráðugu börn.

 

 

Sólveig yrkir einnig sérstök ljóð um rjúpuna, kríuna, lóuna, skógarþröstinn, svartþröstinn, maríuerluna og snjótittlinginn.

Annað áberandi yrkisefni er náttúran, Sólveig yrkir bæði um hið smá og stóra í náttúrunni og mörg þeirra ljóða tengjast heimahögunum. Þá yrkir hún líka um ástina sem brást en lifir þó áfram:

 

Þótt tímarnir breytist hún endist sú ást
þó ei fái hún daglega næring 
við hennar eld skal ég una og þjást
og engu það breytti, er gjörandinn brást
ég herti á hljómgrunnsins hræring.

 

Eitt ljóð Sólveigar ber yfirskriftina "Síðasti förumaðurinn í Rangárþingi" og þar yrkir Sólveig um förumanninn Guðmund, úr Skaftafellssýslu. Ljóðið er í átta erindum og í einu þeirra segir:

 

Víst bar hann það með sér er benti það á
að betra hefði hann átt skilið
en örlögin gjarnan ganga því frá
hverjum gefið er hamingjuspilið.

 

Það er áhugavert hversu mörg skáld - ekki síst kvenskáld - yrkja og skrifa um förumenn. Kannski finna konurnar einhverja samsvörun með förumönnum og sjálfum sér? Hér má minna á hina stóru skáldsögu Elínborgar Lárusdóttur, Förumenn, en um hana segir í færslu um Elínborgu á Skáld.is:

 

Á árunum 1939-1940 kom út sagnabálkur Elínborgar, Förumenn, í þremur hlutum og hlýtur að teljast með merkustu verkum hennar. Í Förumönnum er sagt frá lægstu stétt manna á Íslandi, flökkurunum sem áttu hvergi heima en flökkuðu á milli bæja, algerlega upp á náð og miskunn náungans komnir með mat og húsaskjól. Ýmsar mannlýsingarnar byggir Elínborg á raunverulegum persónum sem hún kynnist sjálf í æsku eða af sögusögnum. En sagan segir einnig frá Efri-Ás ættinni sem er efnuð bændaætt. Sjónarhorn sögunnar er tvöfalt, annars vegar sjónarhorn hinna lægst settu og hins vegar sjónarhorn yfirstéttar þessa tíma. Í frásögninni af Efra-Ás ættinni er áherslan á konur. Þeim er lýst kynslóð fram af kynslóð og allar eru þær af sama bergi brotnar; stoltar, norrænar konur sem sinna skyldu sinni ofar öllu. Þær þurfa að lúta valdi karlmanna, ráða engu um gjaforð sitt og svíður undan kúguninni þótt þær standi alltaf uppréttar og sinni skyldum sínum. Kannski eru þessar konur, engu síður en förumennirnir, hin sönnu olnbogabörn frásagnarinnar.

 

Í Hvundagsljóðum má einnig finna nokkur tækifæriskvæði og stökur. Sumar eru gamansamar og aðrar blanda saman gamni og alvöru, eins og þessi sjálfslýsing:

 

Ég er bæði lúin og löt
og leiðinleg til baga
svo eru þessi sálar göt
er sífellt þarf að staga.

 

Í Skáldatalið okkar er komin inn færsla um Sólveigu sem lesa má hér.

 

 

Tengt efni