Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙ 9. maí 2021
HALLA KJARTANSDÓTTIR FÆR ÍSNÁLINA
Halla Kjartansdóttir hlaut Ísnálina í gær fyrir þýðingu sína á Þerapistanum, eftir norska rithöfundinn Helene Flood. Benedikt útgáfa gaf bókina út.
Ísnálin er veitt fyrir best þýddu glæpasöguna og að verðlaununum standa Bandalag þýðenda og túlka, Hið íslenska glæpafélag og Þýðingasetur Háskóla Íslands.
Skáld.is fékk góðfúslegt leyfi Höllu til að birta þakkarræðu hennar en þar fjallar hún um margslungið hlutverk þýðandans sem þarf að vera allt í senn glæpamaður, lögregla, strokufangi og auðmjúkur þjónn:
Þýðandinn er þessi ósýnilegi, þaulsetni í myrkrinu, sá sem má ekki vera sýnilegur í textanum, sá sem stundar sjónhverfingar á frumtextanum, laðar hann fram og endurskapar á öðru tungumáli, helst þannig að lesandi finni ekki fyrir því að textinn sé þýðing. Hálfgerður glæpamaður að stunda myrkraverk og má ekki skilja eftir sig spor. Hann tætir sundur höfundarverkið til að raða því saman aftur og gera að sínu! Svo er hann líka leynilöggan sem bregður vasaljósinu á loft, lýsir upp textann, lýkur ráðgátunni upp. Hann situr báðum megin borðs, eða eiginlega allan hringinn. Er í senn glæpamaðurinn, löggan og strokufanginn úr einu tungumáli í annað. Í leiðinni þarf hann að vera auðmjúkur þjónn. Þjóna höfundi, þjóna sögunni, þjóna móðurmálinu, þjóna frummálinu og svo þjónn hinna fjölmörgu lesenda. Norskan kallar verknaðinn gjendiktning. Í þeim skilningi endursemur þýðandi verk. Og þó þýðanda líði stundum eins og hann þurfi að fálma sig áfram í myrkri til að finna rétta tóninn, réttu orðin, rétta taktinn er hann þó aldrei alveg einn í myrkri því í tungurmálinu býr öll birta heimsins ef að er gáð en hún þarf að vera í réttum hlutföllum og réttum skömmtum. Þar þarf allt að vega og meta og mæla hárfínt ef þýðingin á að virka og þá kemst heldur ekkert upp um glæpinn.Það er ánægjulegt myrkraverk að bera birtuna á milli tungumála.
Í dómnefnd sátu: Katrín María Víðisdóttir fyrir hönd Hins íslenska glæpafélags, Ingibjörg Þórisdóttir fyrir hönd Þýðingaseturs HÍ og Kristín Vilhjálmsdóttir fyrir hönd Bandalags þýðenda og túlka.
Myndin af Höllu er sótt á Facebook-síðu Bandalags þýðenda og túlka.