GRATÍANA KEMUR ÚT Í DAG
Í dag kemur út skáldsagan Gratíana eftir Benný Sif Ísleifsdóttur.
Gratíana er framhald á Hansdætrum sem Benný Sif sendi frá sér fyrir tveimur árum og sló í gegn. Lesendur Hansdætra hafa beðið spenntir eftir því að heyra meira af Gratíönu. Það er því óhætt að taka undir með útgefanda sem í kynningu talar um "Langþráð framhald Hansdætra. Leiftrandi örlaga- og þroskasaga ungrar konu sem tekst á við sjálfa sig og viðteknar venjur í byrjun tuttugustu aldar." Í kynningu Máls og menningar segir enn fremur:
Þær framtíðarvonir sem Gratíana bar í brjósti sér eru að engu orðnar eftir þrjú ár í Bótarbugt en Evlalía móðir hennar er óbuguð enn. Með kænsku hreyfir hún við lífshjólinu og markar nýja stefnu, ekki aðeins fyrir sjálfa sig, heldur ekki síst Gratíönu og Ásdísi. Glóð kvenréttinda lifir í hjarta Gratíönu en samhliða kvikna aðrir logar sem hún brennir sig á, skilur ekki til fulls og veit ekki hvort hún vill glæða eða slökkva.
Það verður gaman að endurnýja kynnin við Gratíönu sem "er skemmtileg persóna, sjálfstæð og ákveðin stúlka með ríka réttlætiskennd og drauma um annað líf en það sem móðir hennar og aðrar konur þorpsins hafa átt kost á", eins og segir í ritdómi eftir Soffíu Auði Birgisdóttur sem birtist í 3. hefti Tímariti Máls og menningar 2021 og er birtur aftur á Skáld.is í tilefni að útgáfu Gratíönu.