Steinunn Inga Óttarsdóttir∙22. apríl 2021
SKÁLDKONA FÆR VÍSU SÍNA TIL BAKA
„Á handritadeild Landsbókasafns er til kvæðasafn frá síðari hluta 19. aldar sem ber nafnið „Kvennaljóðmæli“. Er það hluti af stærra kvæðasafni í mörgum bindum, er þar haft aftast og til þess vísað á forsíðu með orðunum „svo og kvennaljóð – aftan við“. Í „Kvennaljóðmælum“ eru 64 kvæði eftir 18 skáldkonur frá 18. og 19. öld. Þessar skáldkonur eiga það flestar sameiginlegt (fyrir utan Látra-Björgu, Vatnsenda-Rósu og Guðnýju frá Klömbrum) að vera svo til óþekktar og að lítið sem ekkert hefur birst eftir þær á prenti. Kvæði eftir þær má þó finna á víð og dreif í handritum og bíða þess að koma fram í dagsljósið“... (Helga Kress: Ein a fjallatindum).
Ein þessara skáldkvenna er Guðrún Þórðardóttir frá Valshamri. Fátt er skráð um ævi hennar. Hún fæddist að Gróustöðum í Gilsfirði um 1817 og á Valshamri við Breiðafjörð bjó hún lengst af þar til hún tók sig upp á sjötugsaldri og fluttist með fjölskyldu sinni til Vesturheims. Þar lést hún 1896. Hún orti m.a. um Sumardaginn fyrsta,
„Vísur kveðnar í hörkufrosti...“ eins og hún ritaði sjálf, og er þetta upphaf kvæðisins:
Lof sé guði, liðinn ertu langi vetur,
sárt þó kuldinn svíði bitur
sólin vonargeislann flytur.
„Um aldarfjórðungi eftir lát skáldkonunnar birtust kvæði eftir hana í fyrsta hefti Tímarits Þjóðræknisfélags Íslendinga 1919. Þetta eru ellikvæði, ort vestanhafs, og í einu þeirra getur hún aldurs: „Sjötigi árin, eitt og fjögur / Eg hefi þolgóð strítt.“ Fyrsta erindið í einu þessara kvæða, hringhend haustvísa, hefur lengi verið þekkt á Íslandi sem „ófeðraður“ húsgangur.
Sumri hallar, hausta fer,
heyri snjallir ýtar,
hafa fjalla hnjúkarnir
húfur mjalla hvítar.
Sveinbjörn Beinteinsson birtir fyrri vísuna (reyndar nokkuð breytta) í kynningu á Guðrúnu í Rímnasafninu og telur að hún fjalli um kindur. Myndmálið sver sig í bæði kvenlega hefð sem og yrkisefni og myndmálsnotkun Guðrúnar í ýmsum öðrum kvæðum. Eins og völvan í „Völuspá“ biður hún menn að hlusta. Þarna eru fjallatindarnir sem hún, eins og áður, persónugerir og klæðir í föt, setur á þá húfur svo að þeim verði ekki kalt úti í haustinu og kuldanum. Þessar húfur eru ekki „fitjaðar upp á fölskum prjóni“. Þetta eru íslenskar húfur, í senn barnahúfur og hæruhvítir kollar. Er skáldkonunni hér með færð vísa sín til baka“ (Helga Kress: Ein á fjallatindum).
Gleðilegt sumar lesendur og velunnarar skáld.is!