SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir17. október 2022

NATASHA S. hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

 

Þau gleðilegu tíðindi bárust í dag að Bókmenntaverðlaun Reykjavíkurborgar, kennd við Tómas Guðmundsson, féllu í fyrsta skipti í hlut skálds af erlendum uppruna. Verðlaunin hlaut Natasha S. fyrir ljóðabókina Máltaka á stríðstímum. Bókin er komin út á vegum Unu útgáfuhúss.

Í umsögn dómnefndar segir m.a.:

Máltaka á stríðstímum er áhrifamikið verk, brýnt og einstakt í sinni röð. Það er frásögn manneskju sem fylgist með stríði í heimalandi sínu úr fjarlægð. Hennar eigin þjóð – Rússar – hervæðist og ræðst inn í Úkraínu. Andstaða höfundar við stríðsreksturinn vekur margslungnar tilfinningar og spurningar sem glímt er við í bókinni. Þrátt fyrir átakanleg efnistök einkennist framsetning af lipurð og djúphygli. Skírskotanir í íslenskan raunveruleika færa atburði stríðs í nýtt samhengi og draga fram sláandi andstæður. Mannskilningur höfundar nær þvert yfir þjóðerni, búsetu, reynslu og bakgrunn. Þá er verkið djúppersónulegt þrátt fyrir að inntak þess séu umfangsmiklar hörmungar á alþjóðavísu enda er ástarsögu, minningum og endurliti fléttað saman við af listfengi.“

 

Natasha S. flutti til Íslands frá Rússlandi árið 2012. Hún er menntuð í blaðamennsku og hefur skrifað greinar í lausamennsku um nýja heimaland sitt . Árið 2016 útskrifaðist hún frá Háskóla Íslands með BA-gráði í íslensku sem annað mál og með sænsku sem aukagrein. Natasha S. hefur þýtt íslensk skáldverk á rússnesku, nú síðast Kviku eftir Þóru Hjörleifsdóttur. Hún ritstýrði safnriti ljóða  skálda af erlendum uppruna, sem nefnist Pólífónía af erlendum uppruna, og var auk þess einn höfunda þess. Þá er hún annar tveggja ritstjóra að greinarsafni sem Bókmenntaborgin í Reykjavík gefur út á næsta ári. Máltaka á stríðstímum er fyrsta ljóðabók Natöshu S.

Alls bárust 62 óbirt ljóðahandrit í samkeppnina um Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1994 en árið 2004 var tekin upp sú nýbreytni að veita eingöngu verðlaun fyrir ljóðahandrit. Í dómnefndinni í ár sátu: Guðrún Sóley Gestsdóttir (formaður), Haukur Ingvarsson og Eyþór Árnason.