INGIBJÖRG HARALDSDÓTTIR
21. október 2022 hefði Ingibjörg Haraldsdóttir orðið 80 ára hefði henni auðnast aldur, en Ingibjörg lést í nóvember árið 2016.
Ingibjörg var ljóðskáld og þýðandi og skaraði fram úr á báðum sviðum. Frumsamdar ljóðabækur hennar eru fimm og að auki komu út tvö söfn með ljóðum hennar. Það er einstakt að lesa í gegnum bækur Ingibjargar og sjá hvernig ævisaga hennar og lífsreynsla birtist smám saman í ljóðunum. En um leið og hún byggir á eigin reynslu yrkir hún um tilvist allra kvenna af sinni kynslóð. Ekki síður er magnað að sjá hvernig ljóðskáldið þroskast og eflist stöðugt í list sinni. Ingibjörg Haraldsdóttir var eitt besta ljóðskáld sinnar kynslóðar og áhrifavaldur á mörg þeirra sem yngri eru.
Soffía Auður Birgisdóttir skrifaði yfirlitsgrein um ljóðagerð Ingibjargar sem birtist í Tímariti Máls og menningar 2003 og lesa má á Skáld.is og nefnist: Lygasagan um heiminn og mig.