SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 6. júní 2021

SUMARIÐ Í SVEITINNI

Nú er margur að skipuleggja sumarfríið og því er ekki úr vegi að benda á nýútkomna bók Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur og Guðjóns Ragnars Jónassonar sem þykir tilvalin í bílinn á ferð um landið.
 
Sumarið í sveitinni er kennslubók sem geymir fjölmargar spurningar og svör sem tengjast lífinu í sveitum landsins. Veit fólk til dæmis hvaða starfi kúarektorar gegna? Eða hver er metfjöldi fæddra grísa í einu goti í Húsdýragarðinum? Eða hvað það þýðir eiginlega að marka lömbin? Svörin við þessu og mörgu fleiru er að finna í bókinni, sem er tilvalinn ferðafélagi þegar landsmenn fara í fjölskylduferðir um landið sitt.
 
Þá eru í bókinni ýmsir fróðleiksmolar um fræg dýr og frækin, Fjalla-Bensa og samfélagsmiðlahrútinn Lilla, svo eitthvað sé nefnt. Einnig má finna teikningar af ýmsum þjóðsagnaskepnum, sem margar eru í ætt við íslensku dýrin, og ráðleggingar um hvernig skuli bregðast við ef fólk rekst á þær!
 
Það er Jón Ágúst Pálmason sem myndskreytir bókina og gefa myndirnar henni fjölbreyttan og lifandi blæ. Sumar þeirra eru sérstaklega hugsaðar fyrir unga lesendur til að lita og eru þeir hvattir til að kynna sér búfjárlitina og hafa vökult auga með mislitum skepnum sem sjá má í sveitinni.