SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir23. október 2022

NÝ BÓK FRÁ STEINUNNI ÁSMUNDSDÓTTUR

Steinunn Ásmundsdóttir hefur sent frá sér bókina Ástarsaga sem fjallar um unga Reykjavíkurstúlku og franskan fréttaljósmyndara sem kynnast og verða ástfangin í aðdraganda fundar Reagan Bandaríkjaforseta og Gorbatsjev, leiðtoga Sovétríkjanna, í Höfða í Reykjavík haustið 1986, fundar sem átti eftir að breyta heimssögunni.

Sagan gerist á fimm dögum í kringum fundinn og næstu fimm ár á eftir, þar sem allt var smám saman til lykta leitt og veröldin losuð úr viðjum.

Lýsingarnar á Reykjavík og því hvernig hún fór á annan endann svo dögum skipti vegna fundarins eru kostulegar nú næstum fjörutíu árum síðar. Þetta var tími snúrusímanna og ritvélanna, ýmissa hafta og kredda og síðast en ekki síst tími kalda stríðsins.

Ástarsaga er tímaferðalag og sýnir hvernig sagan endurtekur sig sí og æ. Heillandi bók sem lýsir tilvistarangist, ástarþrá og leit hinnar ungu manneskju að sínum stað í tilverunni.

Steinunn gefur bókina að þessu sinni út sem rafbók, hljóðbók og á pdf-formi. Bókina má kaupa hér: https://www.yrkir.is/index.php/features/astarsaga

Höfundurinn Steinunn Ásmundsdóttir er fædd árið 1966, ljóðskáld, skáldsagnahöfundur og lengst af blaðamaður, búsett í Reykjavík. Ástarsaga er áttunda bókin sem hún sendir frá sér, en áður hafa komið út eftir hana sex athyglisverðar ljóðabækur og sannsagan Manneskjusaga, sem hlaut lofsamlega dóma. Sjá nánar á www.yrkir.is.