SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir30. október 2022

MERKISKONUR SEM ÆTLA MÆTTI RÚM

Út er komin á prent í fyrsta sinn sýnisbók íslenskra bókmennta sem samin var um miðja átjándu öld. Í henni er upptalning þeirra í stafrófsröð sem sinntu bókmenntaiðkun eða tengdust skáldskap með enn öðrum hætti hér á landi á dögum Jóns Thorkelliusar sem tók efnið saman.

Tilgangurinn með þessari „fyrirferðarlitlu handbók“ var aðallega að sýna umheiminum að Íslendingar væru menntuð bókmenntaþjóð. Hann hafði ekki lokið þessu risavaxna verkefni þegar hann lést árið 1759.

Bókin ber hið skondna nafn Sýnisbók þess að Ísland er ekki barbaraland, og er tvímála útgáfa; skrifuð á latínu en Sigurður Pétursson (1944-2020) þýddi. Undir lok inngangs síns að verkinu lætur Jón ekki hjá líða að nefna nokkrar skáldkonur:

Auk þeirra sem ég hef nú nefnt er að finna í annálum og sagnaritum ættjarðarinnar merkiskonur, sem ætla mætti rúm í þessari sýnisbók. Að vísu voru þær ekki lærðar, en nöfn þeirra eða rit gætu jafnvel fyllt þessháttar skrár, en sem stendur er það utan marka þessarar sýnisbókar. Má þar nefna Ólöfu í Vatnsfirði, Helgu á Grund, Halldóru dóttur Guðbrands, biskups hins mikla, sem lét endurreisa kirkuna á Hólum, er jafnast hafði við jörðu í miklu stórviðri, undir eigin stjórn og á kostnað stólsins. Þetta gerðist er faðir hennar biskupinn átti við hættuleg og langvinn veikindi að stríða, og með endurreisn kirkjunnar vann Halldóra sér mikið orð um gjörvallt héraðið. Í þennan hóp má bæta Vatnsfjarðar-Kristínu og móður Árna Magnússonar prófessors í Kaupmannahöfn, sem var Íslendingur að þjóðerni, en hún hafði numið tónlist og rímnatal (49).