SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 3. nóvember 2022

AFSAKIÐ ÞETTA SMÁRÆÐI - Nýtt hefti af Ritinu, sneisafullt af femínisma

Út er komið nýtt hefti Ritsins sem ber yfirskriftina Afsakið þetta smáræði en ritið geymir nú ekkert smáræði því það er sneisafullt af áhugaverðum greinum um femínisma! Þarna má finna sjö greinar eftir jafnmargar fræðikonur, líkt og kemur fram í kynningu Ritsins

Þema Ritsins er að þessu sinni helgað rannsóknum á femínisma en undir hatti þess birtast sjö greinar, allar eftir fræðikonur. Síðustu þrjár bylgjur femínismans eru í brennidepli þótt sjónarhorn og áherslur höfunda séu gagnólík. Ásdís Helga Óskarsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir beina sjónum að íslenskum samtímabókmenntum. Ásdís Helga fjallar um aðdraganda fjórðu bylgju femínismans í íslensku samfélagi og bókmenntir ungra, íslenskra kvenna sem innlegg í baráttuna á meðan að Guðrún skrifar um leiksöguna Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur.

Kynfrelsi og klámvæðing í pósfemínískri umræðu er viðfangsefni Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur. Hún leitast meðal annars við að draga fram hvernig póstfemínisminn er hluti af þriðju bylgju femínisma og hvernig hann sem slíkur hefur áhrif á fjórðu bylgjuna þrátt fyrir að hugmyndaheimur hans geti hljómað annarlega í ljósi aðgerðarstefnu Metoo-bylgjunnar. Arnfríður Guðmundsdóttir lítur aftur á móti til upphafsára femínískrar guðfræði og ræðir um helstu áherslur femínískrar nálgunar innan guðfræðinnar og þá gagnrýni sem frumkvöðlar hennar settu fram á hefðbundna guðfræðiumræðu. Þá fjallar Unnur Birna Karlsdóttir um nokkur meginatriði í hugmyndafræði vistfemínisma og hvernig þessarar stefnu hefur gætt hérlendis í umræðu um jafnréttismál og umhverfisvernd. Hólmfríður Garðarsdóttir skrifar hins vegar um þær aðstæður sem biðu kvenna í kjölfar hernáms Evrópumanna á Rómönsku-Ameríku. Síðast en ekki síst ræðir Helga Kress andstöðu karllægrar bókmenntastofnunar við femínískar bókmenntarannsóknir við upphaf þeirra hérlendis, í hvaða myndum hún birtist og helstu einkenni á orðræðu hennar.

Að þessu sinni er ein þýðing í heftinu sem fellur utan þema. Það er greinin „Staða þýddra bókmennta innan fjölkerfis bókmenntanna“ eftir Itamar Even-Zohar sem birtist hér í þýðingu Jóns Karls Helgasonar. 

Ritstjórar heftisins eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkalestur. Málverkið á kápu Ritsins er eftir Ragnheiði Jónsdóttur og nefnist Deluxe and Delightful.