SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 1. nóvember 2021

TÍMARIT UM LJÓÐLIST og fleira

 
Eins og venjulega á síðustu mánuðum ársins streymdu hausthefti íslensku tímaritanna á sviði bókmennta, sögu og heimspeki úr prentsmiðjum en féllu nokkuð í skuggann af öllum nýju bókunum sem voru að koma á markað. Mikið er um skrif um og eftir konur í öllum þessum tímaritum og hefur orðið merkjanleg breyting á kynjahlutfalli bæði hvað varðar höfunda og efni á þessu sviði. Það er líklega afleiðing af því að nú fylla konur flokk ritstjóra sem aldrei fyrr.
 
Rétt fyrir jól kom svo út tímaritið Són. Tímarit um ljóðlist og óðfræði sem er áhugavert tímarit sem ekki fer hátt, en þar er eingöngu fjallað um ljóðlist og kveðskap, af fornu og nýju, auk þess sem birtir eru ritdómar og ljóð.
 
Són hefur síðastliðin ár lagt áherslu á nýja ljóðlist og má þar nefna að nú birtast í heftinu umfjallanir um þrettán nýjar ljóðabækur.
 
Meðal annars efnis í nýjasta heftinu má nefna grein Hildar Ýr Ísberg um goðsagnapersónuna Skaða og margræðni persónunnar í Eddukvæðum, Snorra-Eddu og Heimskringlu. Og eins og áður sagði er mikið af umfjöllunum um nýjar bækur. Fjallað er um eftirfarandi bækur eftir konur í þessu hefti: Innræti eftir Arndísi Þórarinsdóttur; Berhöfða líf eftir Emily Dickinson; Hugurinn einatt hleypur minn eftir Guðnýju Árnadóttur; Spegilsjónir eftir Guðrúnu Hannesdóttur; Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur; Kyrralífsmyndir eftir Lindu Vilhjálmsdóttur; Ég skal segja ykkur það eftir Sólveigu Björnsdóttur og 1,5/10,5 eftir Vikoríu Blöndal. Þá eru birt ljóð eftir skáldkonurnar Kristínu Eiríksdóttur, Arndísi Þórarinsdóttur og Hönnu Óladóttur.
 
Ritstjórn Sónar skipa þau Árni Davíð Magnússon, Helga Birgisdóttir, Kristján Árnason og Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík.