SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 1. febrúar 2022

LESHRINGUR UM KVENNABÓKMENNTIR

Árið 2018 hélt hinn öflugi leshringur Kvenréttindafélags Íslands upp á 25 ára starfsafmæli sitt.
 
„Snemma í janúar 1993 var samþykkt í stjórn félagsins að stofna til leshrings meðal félagskvenna með áherslu á að lesa kvennabókmenntir. Ragnhildur Vigfúsdóttir, sem þá sat í stjórn félagsins fyrir hönd Kvennalistans, var valin til að veita hópnum forystu. Hún boðaði til fyrsta fundar leshringsins á skrifstofu félagsins 29. janúar 1993, sem telst því stofndagur þessa lífseiga félagsskapar. Á fundinn mætti ein félagskona auk Ragnhildar sjálfrar. Það var Björg Einarsdóttir sem enn starfar með hópnum af fullum krafti, komin á tíræðisaldur. Mjór er mikils vísir og þótt fáliðað væri á fyrsta fundinum fjölgaði fljótt í hópnum“ segir í fróðlegri grein í tímariti félagsins frá 2018.
 
Þegar í upphafi voru lagðar línur um hvaða lesefni skyldi vera á dagskrá leshringsins, þ.e.a.s. kvennabókmenntir í rúmum skilningi. Bækur eftir konur og um konur hafa alla tíð verið í aðalhlutverki, mest íslenskar skáldsögur en einnig hafa þýdd verk erlendra kvenrithöfunda frá ýmsum tímum verið lesin. Auk skáldverkanna hefur hópurinn tekið fyrir annars konar ritverk kvenna, t.d. leikrit, ljóð og fræðirit um sögu kvenna og listsköpun.
 
Lesnar eru góðar bækur um og eftir konur og efni þeirra rætt á reglulegum fundum. Einnig hefur höfundum verka sem lesin eru verið boðið til fundar við leshringinn. Stundum hafa þýðendur verka líka verið gestir. Það væri gaman að vita hvort fleiri kvennabókmenntaleshringir séu starfandi. Sendu okkur línu!