LÍTT SMEKKLEGUR LEIRBURÐUR - um Steinunni Finnsdóttur
Steinunn Finnsdóttir, f. 1640/41, er fyrsta nafngreinda konan í íslenskri bókmenntasögu sem eitthvað verulegt liggur eftir af kveðskap. Í dag birtist á Vísindavefnum glæný færsla um hana undir fyrirsögninni „Hver var fyrsta íslenska skáldkonan og hvað orti hún?“
Þar segir m.a.:
„Rímur Steinunnar eru báðar ortar út af sagnakvæðum; Hyndlurímur út af Hyndluljóðum og Snækóngsrímur út af Snjáskvæði. Þetta sýnir hve nátengdar konur hafa jafnan verið ævintýra- og þjóðsagnahefðinni. Ekki síður er áhugavert hvaða sögur Steinunn kýs að segja. Aðalkvenpersónurnar í rímum Steinunnar eiga það sameiginlegt að á þær eru lögð þung álög, þær fá ekki að vera það sem þær eru, konur, heldur er annarri breytt í tík en hinni í karlmann.“
Á skáld.is segir um Steinunni og rannsóknir á kveðskap hennar:
„Í formála að útgáfu rímna Steinunnar 1950 taldi Bjarni Vilhjálmsson að þær væru „sviplítill og tilþrifalaus skáldskapur, stórlýtalítill eða smáhnyttilegur, þegar bezt lætur, en á köflum lítt smekklegur leirburður.“
Sumir seinni tíma fræðimenn hafa metið Steinunni meira og telur Bergljót S. Kristjánsdóttir (1996) að skáldskapur hennar marki þáttaskil í íslenskum rímnakveðskap - sérstaklega séu mansöngvar hennar frumlegir og jafnvel gæti þar samfélagsgagnrýni.“
Í heimildum kemur fram að Steinunn hafi verið í Skálholti í tíð Brynjólfs biskups. Myndin er vatnslitamynd John Cleveley yngri gerði af Skálholti 1772 (af Vísindavefnum).