SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir25. desember 2022

JÓLALJÓÐ OG JÓLAKVEÐJA

Nú þegar jóladagur er runninn upp er við hæfi að ljóð dagsins sé Jól eftir Ólínu Andrésdóttur en það birtist í tímaritinu Dropar sem geymir ljóð og sögur eftir konur. Tímaritið kom tvisvar út, árið 1927 og 1929 og birtist ljóð Ólínu birtist í seinna heftinu. Ritstjóri og útgefandi tímaritsins var Guðrún Jónsdóttir Erlings (1876-1960). 

Með þessu fallega ljóði óskar Skáld.is lesendum sínum og velunnurum gleðilegra jóla með von um að undir trénu hafi leynst margir harðir pakkar - með bókum og dísætu meðlæti!

 

Jól
 
Nú byrja blessuð jólin
með bjarta ljósa fjöld,
og heilög sólna sólin
nú signir alt í kvöld.
Þú hátíð hátíðanna,
sem heimi boðar frið,
svo augu aumra manna
sjá opin himna hlið.
 
Jeg kem í kirkju þína,
þú kóngur dýrðar hár,
þjer gjöf að gefa mína,
af gleði runnin tár.
Ó, jeg hinn smáði, smái 
á smátt að færa þjer.
En þú hinn helgi, hái
gafst himnaríki mjer.
 
Jeg baðast birtu þinni,
þú bjarta himinrós,
sem leiðst, svo loks jeg finni
mitt líf við dauðans ós.
Þú lýsir ljósum geima
og lífgar sjerhvert strá,
þú einn átt alla heima
og allra sálna þrá.