SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir23. apríl 2022

AÐ DREPA HERMIKRÁKU

Loksins er verðlaunabókin To kill a Mockingbird, eftir ameríska rithöfundinn Harper Lee (1926-2016), komin út á íslensku. Íslenskur titill er Að drepa hermikráku og sá Sigurlína Davíðsdóttir um þýðinguna.
 
Bókin sló strax í gegn þegar hún kom út árið 1960. Hún hlaut Pulitzer-verðlaun ári seinna og kvikmynd byggð á sögunni halaði inn verðlaunum. Þá er bókin talin besta verk allra tíma vestan hafs og hefur selst í milljónum eintaka.
 
Að drepa hermikráku gerist á fjórða áratug síðustu aldar í suðurríkjum Bandaríkjanna. Sagan er sögð út frá sjónarhóli barns, dóttur lögfræðingsins Atticus Finch sem höfundur byggir á föður sínum, og fjallar á afar áhrifamikinn hátt um stéttamismun, kynþáttafordóma, réttlæti og samhygð.
 
Eftirminnilegur titill sögunnar er sóttur í orð Atticus um að það sé synd að drepa hermikráku og þykja þau vísa til þess hvernig níðst er á saklausum í sögunni; hermikrákan er sögð táknræn fyrir sakleysi og meinleysi enda hefur hún ekkert til saka unnið annað en að apa eftir hljóðum annarra fugla. Hér má hlusta á hermikráku herma eftir margs konar fuglasöng.