Matarsögur á Hlemmur Square
Mikið væri gaman að geta alltaf stungið sér inn á stað, fengið sér góðan bita og hlustað á skáld lesa upp úr verkum sínum. Sú sæla hlotnaðist undirritaðri síðastliðið Miðvikudagskvöld, á þeim góða stað Hlemmur Square. Þetta kvöld var það þriðja í röðinni af Matarsögum, bráðskemmtilegri hugmynd sem gekk algerlega upp og vonandi verða fleiri slíkar á staðnum.
Þröstur Leó Gunnarsson gestakokkur reiddi fram unaðslega laxaþrennu (grafinn, reyktur og sashimi), vertinn Klaus Ortileb og Helga Helgadóttir tóku á móti gestum með bros á vör og skáldin Elísabet Kristín Jökulsdóttir og Steinunn G. Helgadóttir lásu upp úr verkum sínum.
Elísabet Kristín reið á vaðið og las upp. Hún flutti "sönn ljóð, afþví að skáldskapurinn er sannur". Hún sagði okkur frá plastpokamönnum, balli, bónorði og mylsnuást. Ástin er taugahrúga, brjóstin á alvöru konum og ofbeldissamböndin, þar sem hún reynir að elska sjálfa sig. Ekki má gleyma sýllendermanninum, hann trúir þér fyrir því að konur hafi oft skipt um sýlender til þess að varna honum inngöngu.
Það ætti að kenna ljóð Elísabetar í grunnskólum.
Steinunn Helgadóttir settist svo inn og sagði sem svo að engin óbrjáluð manneskja færi upp á eftir Elísabetu, en það gerði hún svo sannarlega. Í bókinni hennar "Samfeðra", fer lesandin í hringferð um landið með Jasoni, í leit að 11 hálfsystkynum sínum. Hann hittir þær Barböru og Ölbu, færeyskar konur sem aka um landið á litlum flutningabíl merktum Tannlæknaþjónustan Brosið. Þær þjónusta landsbyggðina einu sinni á ári og djásnið í bílnum er myntugrænn járnstóll á snúanlegum fæti sem líkist silfurslegnum hjólkoppi.
Áhorfendur/hlustendur geta ekki haldið hlátrinum niðri. Janus snæðir með þeim stöllum og lýsingar Ölbu sem sér um eldamennskuna, útí náttúrinni, á prímusnum er óborganleg: "...þrjár mínútur líða áður en ég veiði eggin varlega upp úr pottinum, legg þau á tómatsósulöðrandipappadiskana þar sem þau rúlla innan um hálfkláraðar pylsurnar og ríf að því loknu franskbrauðssneiðarnar niður, deili þeim á milli okkar."
Herstígvél meiða
mjóa leggi
og það er
skuggsýnt
í huga
harðstjóraspíru
Kvöldið var vel heppnað og hlakka ég til að geta upplifað aftur ljóð, sögu og góðan mat á einum og sama staðnum.
- Júlía Margrét Sveinsdóttir