Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙12. febrúar 2023
ANNAÐ LÍF - Verðlaunaljóð Helgu Ferdinandsdóttur
Helga Ferdinandsdóttir vann á dögunum þriðju verðlaun í ljóðasamkeppni Jóns úr Vör. Helga hefur lengi verið viðriðin bókmenntaheiminn. Hún er menntaður bókmenntafræðingur og hefur sinnt ýmsum störfum á því sviði, m.a. hefur hún ritstýrt tímaritnu Börn og menning og er sömuleiðis ein af ritstýrum bókmenntavefjarins Druslubækur og doðrantar. Þá þýddi Helga barnabókina Rósa og Sveppi; Sveppi og Rósa eftir Katja Reider sem kom út árið 2005.
Helga segist eiga fleiri ljóð í skúffunni og að það megi vænta þess að þau rati á bók, sem er vel. Vera kann að verðlaunaljóð Helgu verði þar á meðal en hún gaf Skáld.is góðfúslegt leyfi til að birta þetta áhrifaríka ljóð:
Annað líf
kveikjum á fólkinu
sem tekur ekki
að tala um
dagarnir renna út
í kæliskápum
lokuðum til hálfs
dottandi fjarstýringar
kalla fram
endurtekið efni
á svölunum
bíður sólarhringurinn
með beran arminn
heimilin hverfa
inn í skafla
sem komast ekki til skila
merkingin hendir í tösku
búin að gefa
frá sér orðið
gráskorpinn börkur
opnar loks glufu
fyrir annað líf