Guðrún Steinþórsdóttir∙ 1. nóvember 2021
Hlín Agnarsdóttir og sköpunin
Þann þriðja nóvember næstkomandi mætir Hlín Agnarsdóttir, leikskáld og rithöfundur, á Bókasafn Kópavogs og ræðir við gesti um hvernig virkja megi sköpunarkraftinn.
Hlín er sviðslistafræðingur og leikstjóri að mennt og þótt hún hafi um árabil starfað við fátt annað en listir og sköpun tók það hana mörg ár að líta á sjálfa sig sem listamann. Hlín mun tala um langhlaupið sem það er að vera skapandi listamaður, um þolinmæðina og úthaldið sem það krefst en ekki síst um kjarkinn og trúna á eigin viðfangsefnum. Þá mun hún einnig ræða um hvaðan og hvernig hugmyndir verða til en í því sambandi fjallar hún sérstaklega um áhrifavalda í bókmenntum, leikhúsi og kvikmyndum.
Um þessar mundir fæst Hlín einkum við skriftir og kennslu ritlistar við Háskóla Íslands. Hún er höfundur fjölmargra leikrita sem hún hefur sviðsett sjálf en auk þess hefur hún sent frá sér þrjár skáldsögur og tvær sannsögur. Síðasta skáldsaga hennar kom út í fyrra og bar nafnið Hilduleikur en í haust er væntanleg sannsagan Meydómur sem Hlín byggir á æsku sinni. Í kynningu þeirrar bókar segir:
Fullorðin dóttir kynnir sig hér fyrir látnum föður sínum í listilega skrifuðu bréfi sem jafnframt er bréf til ungu meyjarinnar sem hún eitt sinn var. Meydómur er saga af leiðinni sem hún fetar frá sakleysi bernskunnar til uppreisnar unglingsáranna þegar meydómi hennar lýkur. Saga sem rífur í hjararætur lesandans.
Samræðan um sköpunarkraftinn hefst kl. 12:15 og eru allir velkomnir.