Kapítóla heillar enn
Kapítóla er eftir ameríska rithöfundinn Emmu Dorothy Elizu Nevitte Southworth (1819-1899) sem kallaði sig E.D.E.N. Southworh svo að ekki væri ljóst hvort hún væri karl eða kona. Hún vildi drýgja kennaralaun sín með því að senda tímaritum smásögur og urðu þær strax svo vinsælar að hún lét af kennslunni og gaf sig einvörðungu að skrifunum. Hver sagan af fætur annarri varð metsölubók. Emma skrifaði alls sextíu skáldsögur og fjalla margar um klárar og uppreisnargjarnar stúlkur, líkt og Kapítólu.
Kapítóla, eða „The Hidden Hand or Capitola the Madcap“ eins og hún heitir á frummálinu, kom fyrst út árið 1859 og mun samnefnd söguhetja vera fyrsta strákastelpan í amerískum bókmenntum. Þessi nálgun var mjög á skjön við það sem viðgekkst á þessum tíma, þegar konur áttu að beygja sig auðmjúkar undir húsbóndavaldið. Sagan birtist fyrst á íslensku sem framhaldssaga árin 1896-1897 í vesturíslenska vikublaðinu Heimskringlu í Winnipeg og 1897 kom hún öll út á bók þar vestra. Árið 1905 kom bókin út í Reykjavík og átti hún miklum vinsældum að fagna hér á landi. Að vísu heyrðist stöku óánægjurödd; t.d. voru Jónas Jónasson frá Hriflu og Bjarni frá Vogi lítt hrifnir af sögum sem þessum sem þeir litu á sem ómerkilega reyfara. Þessi afstaða breytti því þó ekki að sagan varð svo hugleikin Íslendingum að stúlkur voru jafnvel skírðar í höfuðið á Kapítólu en til gamans má geta þess að miðað við nýjustu upplýsingar frá Hagstofu Íslands heita tvær stúlkur á landinu í dag Kapítóla að fyrra nafni og fjórar bera það sem annað eiginnafn.
Kapítóla hefur margoft verið gefin út hér á landi og nú síðast í ár, í þýðingu og endursögn Eggerts Jóhannssonar. Silja Aðalsteinsdóttir yfirfór útgáfuna og skrifar einnig eftirmála en þaðan er að mestu fenginn ofangreindur fróðleikur.
Kapítóla er hin besta skemmtun; frásögnin spennandi, þýðingin lipur og persónusköpunin einstaklega skemmtileg. Hin klára og frakka Kapítóla heillar enn.
Myndin af bókarkápu er fengin af síðu Forlagsins.
Myndin af Emmu er fengin af Wikipediu.