SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir 2. október 2020

Unnur Lilja hlaut Svartfuglinn í ár

Glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn voru afhent í liðinni viku en það var Unnur Lilja Aradóttir sem fékk þau fyrir söguna Höggið. Þetta er í fjórða sinn sem keppnin er haldin en áður hafa Eva Björg Ægisdóttir, Eiríkur P. Jörundsson og Katrín Júlíusdóttir hlotið verðlaunin. Í ár bárust tæplega tuttugu handrit í samkeppnina. Sem fyrr eru það glæpasagnahöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson sem standa að Svartfuglinum ásamt bókaútgáfunni Veröld en með þeim í dómnefndinni sat Bjarni Þorsteinsson. Verðlaununum er ætlað að hvetja höfunda til að skrifa glæpasögur, stuðla að því að fleiri skrifi bækur á íslensku og hjálpa höfundum að gefa út verk sín bæði hérlendis og erlendis en verðlaunahafa býðst samningur við breska umboðsmanninn David Headley.
 
Höggið fjallar um unga konu sem þjáist af minnisleysi eða eins og segir í kynningu bókarinnar:
 
Ung kona vaknar á sjúkrahúsi með höfuðáverka – og hefur auk þess misst minnið. Hún þekkir hvorki tilveru sína né sjálfa sig en fljótlega fær hún á tilfinninguna að eitthvað sé ekki eins og það eigi að vera. Hún leggur upp í ferðalag á vit fortíðar sinnar – viðsjárvert ferðalag þar sem skelfilegir atburðir afhjúpast smám saman.
 
Lesendur eiga án efa von á spennandi sögu en í umsögn dómnefndar um Höggið kemur fram að verkið sé „óvenjuleg spennusaga þar sem undarleg tilfinning grípur lesandann strax á fyrstu síðum bókarinnar. Í lifandi en látlausum texta og hnitmiðaðri frásögn nær höfundurinn föstu taki á lesandanum.“
 
Höggið er þriðja skáldsaga Unnar Lilju en árið 2019 sendi hún frá sér sína fyrstu bók, Ein­fald­lega Emma, sem fjallar um hina 35 ára gömlu Emmu sem verður ástfangin af nítján ára gömlum syni vinkonu sinnar.
 
Það er einkar ánægjulegt að fá nýja rödd inn í hina íslensku glæpasagnaflóru og óskum við Unni Lilju hjartanlega til hamingju með verðlaunin.

Tengt efni