SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir11. september 2021

Lítið, stórt og loðið skrímsli

 
Út er komin tíunda bókin í skrímslabókaflokknum sívinsæla eftir Áslaugu Jónsdóttur, Kalle Güttler og Rakel Helmsdal. Bókin heitir Skrímslaleikur og sem fyrr hitta lesendur fyrir litla og stóra skrímslið sem nú eru að bauka eitthvað saman í leyni. Loðna skrímslið, vinur hinna tveggja, skilur fyrst ekki neitt í neinu en þegar það fær að taka þátt í leiknum verður aldeilis kátt í höllinni. Það er því ekki útilokað að bæði börn og fullorðnir hrópi í kór lokaorð bókarinnar að lestri loknum: „Aftur! Aftur! Aftur!“
 
Skrímslaleikur er þegar komin út á sænsku en von er á henni síðar í haust á færeysku. Tvær fyrri bækur um skrímslavinina, sem hafa lengi verið ófáanlegar, voru líka endurprentaðar á dögunum; það er að segja Skrímslapest (2008) sem segir frá bráðsmitandi sjúkdómi og Skrímsli í heimsókn (2009) þar sem loðna skrímslið er í fyrsta sinn kynnt til sögunnar.
 
Skrímslabækurnar eiga það sameiginlegt að vera frumlegar, skemmtilegar og uppfullar af kátínu um leið og þær taka á allskonar mikilvægum viðfangsefnum. Í þeim er gjarnan lögð áhersla á mikilvægi vináttunnar, samkennd og samlíðan. Sögurnar eru samvinnuverkefni þriggja norrænna höfunda sem semja texta bókanna í sameiningu og jafnhliða á eigin móðurmálum; Áslaug Jónsdóttir á íslensku, Rakel Helmsdal á færeysku og Kalle Güttler á sænsku. Þá sér Áslaug einnig um myndrænu frásögnina; hún myndlýsir, hannar útlit og brýtur um textann. Myndirnar eru einstaklega vel gerðar en þær bera sögurnar áfram og segja einatt meira en fram kemur í textanum. Áslaug leikur sér iðulega með letur bókanna; hún feitletrar sum orð og gerir þau stærri en önnur til þess að leggja áherslu á ákveðna þætti eða koma tilteknum tilfinningum sögupersóna á framfæri.
 
Sögurnar um skrímslin eru margverðlaunaðar en níunda bókin í flokknum, Skrímsli í vanda, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka og var tilnefnd til Barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs. Bækurnar hafa hrifið bæði unga og fullorðna lesendur allt frá því að fyrsta bókin í flokknum, Nei! sagði litla skrímslið, kom út árið 2004 og engin hætta er á að skrímslaaðdáendur verði sviknir af nýju bókinni.
 
Myndirnar eru fengnar af heimasíðu Áslaugar Jónsdóttur: https://aslaugjonsdottir.com/
 

 

Tengt efni