Helga Jónsdóttir∙26. ágúst 2021
Hlaðvörp um bókmenntir
Hlaðvörp njóta mikilla vinsælda nú um stundir og í ljósi þess hve einföld þau eru í framleiðslu hefur fjöldi fólks tekið upp á að gera hlaðvarpsþætti um allt milli himins og jarðar. Þar eru bókmenntir sem betur fer ekki undanskildar og þónokkur íslensk bókmenntahlaðvörp hafa litið dagsins ljós upp á síðkastið. Líkt og hlaðvarpsunnendur vita geta hlaðvörp bæði stytt stundir og gert ýmis hversdagsleg skylduverk bærilegri. Það er til dæmis tilvalið að hlusta á forvitnilegt bókmenntahlaðvarp á meðan heimilisverkin eru unnin. Múltítaska, eða kannski öllu heldur múltítuska, aðeins með tusku í annarri og bókmenntaspjall í eyrum.
Skáld.is tók saman lista yfir nokkur íslensk hlaðvörp sem fjalla um bókmenntir og eru í umsjón kvenna.
Jakobína – skáld á skökkum stað
Fyrst ber að nefna „Jakobínu – Skáld á skökkum stað“ sem kom út fyrir ári. Titillinn vísar í smásagnasafn Jakobínu Sigurðardóttur Púnktur á skökkum stað (1964) en um er að ræða heimildahlaðvarp í þremur hlutum um hina merkilegu skáldkonu. Á síðu hlaðvarpsins er Jakobínu lýst sem formbyltingarsinna, sósíalista og baráttukonu og í hlaðvarpinu er fjallað um þá eiginleika hennar, verk hennar sett í samfélagslegt og sögulegt samhengi og staða hennar í bókmenntasögunni skoðuð.
Fjallað er um skáldsöguna Lifandi vatnið í fyrsta þætti, Snöruna í öðrum en í þriðja og síðasta þættinum er kveðskapur Jakobínu í forgrunni. Meðal annars er rætt við dóttur Jakobínu, Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur sem skrifaði ævisögu móður sinnar, og Ástu Kristínu Benediktsdóttur, doktor í íslenskum bókmenntum.
Hlaðvarpið er skemmtilegt og fróðlegt bæði fyrir aðdáendur Jakobínu og þá sem ekki þekkja verk hennar.
Skúffuskáld
Anna Margrét Ólafsdóttir hefur umsjón með hlaðvarpinu Skúffuskáld en á síðu þáttarins er honum lýst svo:
Í þáttunum ræðir Anna Margrét Ólafsdóttir við rithöfunda um allt mögulegt sem tengist því að skrifa og skálda. Sjónum verður aðallega beint að því hvernig það er að stíga fyrstu skrefin sem rithöfundur og hvernig ferlið við ritun bóka, ljóða og sagna er.
Anna hefur tekið forvitnileg og einlæg viðtöl við fjölda höfunda en sem dæmi má hlusta á hana ræða við Kristínu Ómarsdóttur, Steinunni Sigurðardóttur, Gerði Kristnýju og Auði Haraldsdóttur.
Listin og lífið
Tanja Rasmussen og Ástrós Hind Rúnarsdóttir halda úti hlaðvarpinu Listinni og Lífinu. Tanja er íslenskufræðingur og Ástrós nemur bókmenntafræði og ritlist og lýsa þær þáttunum sínum sem umræðu á léttu nótunum um bækur, ljóð og leikrit. Í flestum þáttanna taka þær fyrir eina eða fleiri bækur og verða alls konar verk fyrir valinu hjá þeim.
Beðmál um bókmenntir: Hlaðvarp um heim bókanna
Katla Ársælsdóttir, bókmenntafræðingur, hóf að senda frá sér hlaðvarpsþættina „Beðmál um bókmenntir: Hlaðvarp um heim bókanna" meðan hún var nemi í bókmenntafræði. Þættirnir eru á samtalsformi og þar ræða Katla og Vala, klippandi þáttanna sem einnig er bókmenntafræðingur, saman um bókmenntir, bókmenntafræði og ýmislegt fleira sem kemur til tals. Í sumum þáttanna fær Katla til sín gesti og ræðir við þá um uppáhaldsbækur þeirra og hvaða áhrif þær hafa haft á líf þeirra. Þættirnir hverfast gjarnan um eitt ákveðið verk, höfund eða bókmenntagrein og sem dæmi má hlusta á þætti um Virginiu Woolf, Hroka og hleypidóma og sjálfshjálparbækur.
Hlaðvörp Lestrarklefans
Að lokum má nefna að bókmenntavefurinn Lestrarklefinn.is heldur úti hlaðvarpi um bókmenntir. Þar birtast reglulega þættir undir misjöfnum formerkjum en nú síðast komu út þrír þættir sem hafa yfirskriftina „Eftir flóðið.“ Í þeim voru valdir þrír höfundar sem áttu bækur í jólabókaflóðinu 2020, það voru þau Björk Jakobsdóttir, Yrsa Þöll Gylfadóttir og Alexander Dan, en umsjónarkonum Lestrarklefans fannst bækur þeirra hafa mátt hljóta meiri athygli. „Bókamerkið“ er önnur hlaðvarps-röð sem finna má á síðu Lestrarklefans en hún er unnin í samstarfi við Miðstöð íslenskra bókmennta. Í flestum þáttanna er sjónum beint að ákveðinni bókmenntagrein og má meðal annars hlusta á þætti um myndasögur, glæpasögur, ljóðabækur og ungmennabækur.
Skáld.is hvetur bókabéusa endilega til að kynna sér þessi hlaðvörp.