SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir 5. september 2021

HVÍLÍKAR ÓFRESKJUR

 
 
Bókmenntafræðingurinn Auður Aðalsteinsdóttir sendi nýlega frá sér afar áhugaverða bók sem ber heitið Þvílíkar ófreskjur. Verkið byggir á doktorsrannsókn Auðar og fjallar um vald og virkni ritdóma á íslensku bókmenntasviði. Titill bókarinnar; Þvílíkar ófreskjur; er fenginn frá Jónasi Hallgrímssyni sem í frægum ritdómi notaði þessi orð um Tristansrímur Sigurðar Breiðfjörðs. Titillinn vísar til hins tvíbenta hlutverks gagnrýnandans; hann á að benda á lesti bókmennta en um leið verður hann oft sjálfur að ófreskju í hugum fólks.
 
Í kynningu bókarinnar segir:
 
 
Bókin er afrakstur rannsóknar á eðli og einkennum ritdóma í fjölmiðlum, virkni þeirra á íslensku bókmenntasviði og ógnandi en ótryggu valdi ritdómarans. Ritdómar eru afurð prentmiðlanna og þróast með þeim, hér á landi sem annars staðar. Sú þróun er hér rakin í grófum dráttum, með megináherslu á sögu bókmenntagagnrýni á 20. öld. Sérstakur gaumur er gefinn að þætti kvenna í þessari sögu, þar sem hann hefur hingað til ekki fengið athygli sem skyldi, og í lokin er velt upp spurningum um framtíð ritdóma í nýju, tölvuvæddu umhverfi.
 
 
Einkar ánægjulegt er að sjá að Auður veitir þætti kvenna í sögu ritdóma sérstaka athygli en í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu á dögunum sagðist hún hafa lagt áherslu á að fjalla um kvengagnrýnendur:
 
 
„Kvenhöfundar detta oft út þegar sagan er skrifuð seinna svo ég eyddi miklum tíma í að leita uppi konur sem hafa verið að skrifa gagnrýni í gegnum tíðina. Það eru náttúrulega margar konur, alltaf fleiri en maður heldur, þegar maður fer að leita eftir því. Mér fannst mikilvægt að hafa þá vídd inni í þessu auk þess að spá svolítið í það hvaða áhrif kynjapólitíkin hefur haft á bókmenntaumræðuna. Það er eitthvað sem ég er mjög ánægð með að hafa gert og það var eiginlega ekki annað hægt en að leggja áherslu á það.“
 
 
Þvílíkar ófreskjur er stór í sniðum en hún telur tæplega 600 blaðsíður. Aldrei hefur áður verið gerð eins yfirgripsmikil rannsókn á íslenskum ritdómum og er verkið því mikill fengur fyrir íslenska bókmenntasögu.