Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙26. febrúar 2022
LJÓÐ DAGSINS - það sást selur í ánni eitt árið
Ljóð dagsins er eftir Elínu Gunnlaugsdóttur tónskáld og skáldkonu sem nú hefur bæst við Skáldatalið. Elín byrjaði ung að yrkja og á framhaldsskólaárunum birtust nokkur ljóð eftir hana í blöðum og tímaritum.
Elín hefur gefið út tvö bókverk tengd tónlist sinni og árið 2020 sendi hún frá sér ljóðabókina Er ekki á leið - Strætóljóð. Bókin er prýdd ljósmyndum eftir Elínu sem hæfa vel efninu. Líkt og titill bókar gefur til kynna hverfast ljóðin um strætóferðir og ýmsar hugrenningar ljóðmælanda á þeim ferðum sínum og er gjarnan stutt í húmorinn, líkt og sjá má í ljóðinu um Selfoss:
selfoss ii
fossinn!
bara djók
segi ég við
ferðamennina
þeir verða
sorgmæddir
á svipinn
svo ég flýti mér að segja:
það sást selur í ánni eitt árið