SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir10. febrúar 2022

FRUMBIRTING LJÓÐS - Gári eftir Díönu Sjöfn

Að þessu sinni er ljóð dagsins Gári eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur en það hefur hvergi birst áður á prenti.
 
Auk þess að vera skáldkona er Díana Sjöfn bókmennta- og menningarfræðingur. Hún hefur sent frá sér tvö verk; ljóðabókina Freyju sem kom út árið 2018 og árið eftir kom út skáldsagan Ólyfjan. Það er því orðið tímabært að Díana Sjöfn sendi frá sér nýtt verk. Mögulega styttist í það því ljóðið Gári kemur beint úr ylvolgri smiðju skáldkonunnar og má ætla að fleira bíði þar birtingar.
 
 
 
Gári
 
Þau eiga
línustrikað líf
gárurnar liggja kannski undir
straujuðu dúkunum
Í sænska dekornum
Í þráðum egypsku bómullarinnar
raknar upp
 
 
þau sýna allt tipp topp
Í hólf og gólf
ekki spyrja að því
þetta snýst allt um skipulagið
um að skrifa í bók
línur
vel ígrundaðar línur og lista
setja allt upp í töflur og
Setja hluti ofan í ílát
úr plexígleri
hólfa
hluti sem eru í boxum
ofan í önnur box
sálina í ógegnsætt box
tilvistina upp í hillu
strjúka ítrekað af
 
strjúka
 
 
af