SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 7. júlí 2021

FRÁBÆR LIÐSAUKI

 
Skáld.is hefur ráðið tvo bókmenntafræðinga í tímabundið starf við vefinn. Þetta eru þær Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir, sem munu næstu þrjá mánuði vinna að því að uppfæra og laga skáldatalið, bæta við nýjum færslum, skrifa ný innlegg og hlaða inn efni sem tengist íslenskum kvennabókmenntum.
 
Guðrún Steinþórsdóttir er með doktorsgráðu í íslenskum bókmenntum. Hún er sjálfstætt starfandi fræðimaður, stundakennari við Háskóla Íslands og annar aðalritstjóri Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar. Bókmenntarannsóknir hennar má kenna við hugræn fræði, læknahugvísindi og femínisma en hún hefur ekki síst beint sjónum að bókmenntum kvenna.
 
Helga Jónsdóttir leggur stund á meistaranám í almennri bókmenntafræði og hefur einkum lagt áherslu á kynjafræði og gagnrýnin fræði. Hún hefur lokið tvöfaldri BA-gráðu í íslensku og almennri bókmenntafræði.
 
Skáld.is býður þær Guðrúnu og Helgu velkomnar til starfa og fagnar þessum frábæra liðsauka!