Soffía Auður Birgisdóttir∙30. október 2020
NÝ SKÁLDSAGA VILBORGAR KOMIN ÚT
Sagnabálkur Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu Ketilsdóttur, fyrstu landsnámskonu Íslands: Auður (2009), Vígroði (2012) og Blóðug jörð (2017) hefur sannarlega slegið í gegn hjá lesendum. Enda er um að ræða merkilegt verk í íslenskri bókmenntasögu, sem auk þess er einstaklega vel skrifað og fjallar um áhugavert söguefni sem Vilborg hefur rannsakað niður í kjölinn til að undirbyggja skáldskapinn.
Sterkt kvennasjónarmið ríkir í þessum bókum Vilborgar og kannski má kenna aðferð hennar við femíníska endurskoðun á íslenskum fornsagnaarfi.
Aðdáendur bókanna um Auði hljóta að fagna útkomu nýrrar skáldsögu Vilborgar, Undir Yggdrasil, því þar heldur hún áfram á svipuðum slóðum og í Auðar sögu. Aðalpersóna bókarinnar er nefnilega ömmubarn Auðar: Þorgerður, dóttir Þorsteins rauða sem var einkasonur Auðar og Ólafs hvíta.
Í kynningu forlagsins á Undir Yggdrasil segir:
Þorgerður Þorsteinsdóttir ól tvíbura þegar hún var sjálf vart af barnsaldri en mátti bíða lengi eftir óskabarninu sínu, Þorkötlu Dala-Kollsdóttur. Því harmþrungari eru atburðirnir eftir þingið á Þórsnesi þegar tátlan er aðeins sjö ára gömul – og öllum óskiljanlegir. Þorgerður kýs heldur að leita styrks hjá skapanornunum undir askinum Yggdrasil en Hvítakristi ömmu sinnar, Auðar djúpúðgu, og leitin að sannleikanum leiðir hana í siglingu austur yfir haf og seiðför í sali Heljar.
Ljóst er að lesendur eiga spennandi lestur í vændum.