Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙28. desember 2021
LJÓÐ DAGSINS - Ort um flagara á 19. öld

Í bókinni Skáldkona gengur laus: Erindi nítjándu aldar skáldkvenna við heiminn eftir Guðrúnu Ingólfsdóttur er birt brot úr býsna hressilegu ljóðabréfi sem Ingibjörg Benediktsdóttir orti til Helga Sigurðssonar, vinnumanns og fyrrum heitmanns. Þar segir Ingibjörg honum til syndanna fyrir að svíkja hana í tryggðum:
Breyttur orðinn bendir korða ertu
man ég orðum eftir þín
að þú forðum beiddir mín.
Hyggjan gáði greitt að ráði mínu
og sem bráðast baugaver
burtu náði vísa þér.
Títt kjökrandi tróðum banda eftir
eins og fjandinn alstaðar
óstöðvandi girnd þín var.
Einatt meður mjúkum fleðulátum
nefna réðir þetta þú
þína séð fær breytni nú.
Þó um síðir þinni blíðu tæki
beiskur kvíði brjóstið skar
byrjaðist tíðin reynslunnar.
Þína líka þekka ei bríkur klæða
kostasýkin þjáir þig
þú vilt svíkja í tryggðum mig.
Flagari með fölskum lygiorðum
svikin drýgir þrávalt þú
þanka frí um stundir nú.
Á þig líta ei vil nýta framar
síst ég hlýt að sakna þín
svikahnýti og lostaskrín.
En heyrðu sláni heimskur kjánalegur
mitt var lánið meira nú
mig forsmánað gætir þú.
Það var happ að þínum slapp úr greipum
ég held ei vappir hryggur nú
Helgu klappað getur þú.
(bls. 234-236)
Þess má geta að í aftanmálsgrein við umfjöllunina um Ingibjörgu kemur fram að hún sé ýmist sögð vera Ingibjörg Líndal frá Króksfjarðarnesi í Geiradal eða Ingibjörg Benediktsdóttir og húnvetnsk. Guðrún Ingólfsdóttir segist engar heimildir hafa fundið um þessar ofangreindu konur sem passi við skáldkonuna.
Mynd: JGT