Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙13. apríl 2021
STÚLKAN SEM VAR GEFIN
Út er komin önnur ljóðabók Hlífar Önnu Dagfinnsdóttur sem ber titilinn Stúlkan sem var gefin. Í bókinni segir Hlíf Anna frá reysnlu sinni að vera ættleidd en það var ekki fyrr en hún var orðin 17 ára að hún fékk fæðingarvottorð sitt í hendur og komst að hinu sanna.
Löngunin um að skrifa um ættleiðinguna blundaði lengi í Hlíf Önnu en hana skorti til þess kjarkinn. Það var ekki fyrr en hún fór að sækja tíma í ritsmiðju Borgarbókasafnsins í Árbæ að hún fékk þá hvatningu sem á þurfti að halda.
Stúlkan sem var gefin geymir á fjórða tug ljóða sem eiga það sammerkt að geyma djúpstæðar og oft sárar tilfinningar. Hér á eftir fer eitt ljóðanna:
Sú eina móðir
ég horfi á móður mína
sé hvernig lífið fjarar út
hún lítur til mín brostnum augum
eins og hún hafi eitthvað að segja
augu mín fyllast tárum
við skildum aldrei hvor aðra
orð voru aldrei sögð
elsku móðir mín
hvað ég sakna þín sárt
þú varst móðirin sem ég þekkti
fann að þér þótti
vænt um mig
sagðir það aldrei