SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir21. júní 2021

LJÓÐ DAGSINS - Hafnarvogin

Ljóð dagsins er Hafnarvogin eftir Brynju Hjálmsdóttur. Ljóðið birtist í Ljóðabréfi No 3 sem Tunglið forlag gaf út á árinu.
 
Brynja Hjálmsdóttir hefur sent frá sér eina ljóðabók, Okfrumuna, og hlaut hún afar góðar viðtökur. Bókin hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana og var tilnefnd til bæði Fjöruverðlaunanna og Rauðu hrafnsfjaðrarinnar.
 
 
 
Hafnarvogin
 
Ekkert sleppur frá hafnarvoginni
i henni er allt vegið
og metið
 
Ekkert sleppur allt skal leggjast
á vogina
 
Bifreiðar, löngur og rauðmagar
gormadýnur, hjólbörur og dráttarvélar, spíttbátar
marbendlarnir blaðskellandi
af hlátri með þúfurnar tómar í fanginu
þeir verða líka að leggjast á vogina
 
Allir verða að taka sakramentið allir verða að vigtast
við viljum vita
hvað þeir eru dýrir því þyngra því dýrara
fiskurinn er dýr - samt eru vasar okkar tómir
alltaf syndir hann í gegnum fingur okkar hann er
sleipur
 
Þetta er eins konar lögmál
allt sem vogar sér í höfnina
er vegið
á hafnarvoginni
 
Sumt er metið að verðleikum
en flestu er hafnað
 
 
Mynd: JGT