SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir 8. október 2021

LJÓÐ VIKUNNAR - Líf í draumum

„En það liggur í augum uppi, að hún hefur þegar náð góðum árangri. Ljóð hennar vekja bjartsýni um framtíð hennar sem skáldkonu. Mér finnst þau með því forvitnilegasta, sem lengi hefur komið frá yngstu skáldakynslóð.“
 
Á þessa leið komst Jóhann Hjálmarsson að orði í ritdómi um ljóðabók Nínu Bjarkar Árnadóttur, Undarlegt að spyrja mennina, sem kom út árið 1968. Nína Björk átti eftir að halda áfram að gera forvitnilega hluti í skáldskapnum en alls sendi hún frá sér tíu ljóðabækur. Ljóð vikunnar er að þessu sinni ættað úr bókinni Undarlegt að spyrja mennina og nefnist einfaldlega „Ljóð“.
 
Ljóð
 
Ef til vill
ef þú hlustar vel
heyrirðu
um hvað ég er að hugsa
 
einhver hurðarhúnn
sem hönd mín greip um
oft var það.
Hvernig þvotturinn hékk á snúrunum.
Líka þegar lömbin fæddust.
 
Og næturnar
þú í myrkrinu
brimið svæfði okkur bæði.
Óttinn var ekki tíður gestur.
 
Við sváfum stundum
langt inní snjónum
með lófana fast saman.
Og hafið fjaran.
 
Eitt get ég sagt þér
Hvernig á að lifa
Aðeins í draumum sínum
Aðeins í draumum sínum
jafnvel þó sólin
elti mann
allan daginn.