SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 8. nóvember 2018

Þjónn það er súpa í súpunni minni

Sjöfn Hauksdóttir er 25 ára skáld úr Kópavoginum og kom fyrsta ljóðabók hennar, Ceci n´est ne pas une ljóðabók, út hjá Kallíópu þann 19. október. Bókin er á hárbeitt og blátt áfram, næstum óþægilega hreinskilin á köflum, og fjallar á kaldhæðinn hátt um ástina, kynlíf, nútímann og lífið.

Ceci n’est pas une ástarljóð/ Paris je t’aime

Í borg ástarinnar

leiddumst við leyndardómsfullar

hlógum á eigin tungumáli

og kysstumst í einrúmi mannmergðar.

Maðurinn sem pissaði á mig

úr skúmaskotum borgarinnar

varð þó að betri minningu en þú

þegar frá leið.

Bókin fjallar að sögn Sjafnar um óöryggi nútímamannsins og er það nokkuð góð lýsing. „Það er einn kafli í bókinni sem er bara um súpur, sem mér hefur verið sagt allavega þrisvar að ég ætti að taka út af því að hann sökkar. Sem ég held að sé alveg eitthvað til í upp að vissu marki. EN, undirtitillinn er að þetta eru ljóð um óöryggi nútímamannsins og ég held að það sé ágætur svona, ágætt umfang um það . . . mér finnst mjög mikið skína í gegn [í bókinni] svona eitthvað sem allir eru að pæla í núna . . . Hvað er ég að gera? Hvað eru allir hinir að gera? Þannig að ég held að þetta sé ljóðabók um óöryggi nútímamannsins. Mjög gott og tilgerðarlegt svar.“

Eins og áður sagði er Ceci n´est ne pas une ljóðabók fyrsta verk Sjafnar sem gefið verður út en hún hefur þó skrifað ljóð og sögur í þó nokkurn tíma. „[Ég] tók svona klassískt emo-tímabil og var alltaf að skrifa ljóð á geðveikt lélegri ensku . . . ég held ég hafi verið eitthvað 14, 15. Og svo þegar ég var í menntaskóla gerði ég einhvern tímann smásögu, fyrir smásögukeppni, þú veist bara bekkurinn, og ég var sú sem vann. Og [mér] fannst það gaman og byrjaði þá að skrifa skáldsögu, sem var alveg frekar löng.“ Skrifin eru mikilvægur hluti af lífi Sjafnar en hún setur þó ekki endilega stefnuna á að verða rithöfundur í fullu starfi heldur langar að verða bókmenntafræðingur með skrifin til hliðar. „Núna er ég í master í bókmenntafræðinni og ætla að fara líka í doktor, ég á mér alveg svona lífsdraum að halda áfram með það og vinna í því. En ég er mjög til í það að halda áfram að skrifa ef það gengur vel.“

Hvað árangur sem rithöfundur varðar finnst Sjöfn hann meira felast í því að ná að klára eitthvað – ekki fyrir aðra heldur sjálfa sig – en að selja bækurnar sínar í þúsundum eintaka. Því eins og hún bendir réttilega á er ekkert endilega samasemmerki milli þess að fá útgefna bók og að bókin verði lesin. Því finnst henni utanaðkomandi viðurkenning ekki mikilvægur partur af ritstörfunum, það sem mestu máli skiptir er að hún sé sjálf ánægð. „Allur tími sem þú eyðir í eitthvað sem gefur þér eitthvað vera tíma vel varið. Þannig að ef ég er bara eitthvað heima hjá mér að gera eitthvað sem mér finnst sjúklega næs þá myndi ég segja að það væri árangur. [Þetta er] eitthvað sem mig langar bara að hafa fyrir mig, að hafa skrifað bók. Það þarf ekkert að vera partur af því að hafa skrifað bók sem var gefin út og tók yfir heiminn.“

Viðtalið birtist fyrst á síðu Kallíópu